Svíar hafa gott lag á ýmsu.
Þegar ég var að alast upp var hér landlæg óbeit á Svíum í vissum kreðsum.
Það var talað um sænsku mafíuna og óholl áhrif frá Svíþjóð. Ég man ekki betur en að gerður hafi verið sjónvarpsþáttur um sjálfa sænsku mafíuna – það mætti vel rifja hann upp.
Því var líka lengi spáð að Svíþjóð myndi hrynja undan þunga velferðarkerfisins. Það hefur ekki gerst og nú er Svíþjóð það land á Vesturlöndum þar sem efnahagsástandið er hvað best.
Svíum er líka margt gott lagið.
Ég hef til dæmis alltaf verið hrifinn af Ingvari Kamprad, stofnanda Ikea. Ég tek fram að ég höndla ekki að skrúfa saman Ikea mublur og að Ikea verslun er giska nálægt minni hugmynd um helvíti, en stjórnunarstíll Kamprads er flottur.
Hann þolir til dæmis ekki langa fundi og það hefur verið regla hjá fyrirtæki hans að á fundum skuli fólk standa og að það fái ekki kaffi eða aðra hressingu.
Hér segir svo frá stærstu verslun Norðurlanda sem er í Gekas í Svíþjóð. Það hefur aldrei verið meira að gera hjá þessari verslun, en samt auglýsir hún aldrei, fyrir utan litla jólakveðju í staðarblaðinu, Hallands Nyheter.