Fór að sjá Íslandsklukkuna í kvöld.
Þetta er að mörgu leyti góð sýning, kannski helst til löng, leikur yfirleitt prýðilegur og það er kostur að leikarar fara vel með textann sinn.
Maður spyr hins vegar hvort verið sé að spara í leikmyndadeildinni? Leikmyndin var frekar naumhyggjuleg.
Ég sá sýningu á Íslandsklukkunni þegar ég var átta ára, hlustaði sem strákur margsinnis á upptökuna sem gefin var út hjá Fálkanum með nokkrum hljómplötum í rauðri öskju.
Íslandsklukkan er ekki leikrit, heldur sviðsett skáldsaga. Það finnur maður glöggt þegar maður sér hana í leikhúsi. Ég er ekki viss um að þeir sem hafa ekki lesið bókina viti alveg hvað er að gerast. Að því leyti er eiginlega furða hversu oft hún hefur verið leikin á íslensku sviði – en það stafar líklega af því að þetta var á sínum tíma opnunarsýning Þjóðleikhússins.
En Íslandsklukkan er full af góðum tilsvörum og bráðskemmtilegum persónum, þá sérstaklega Jóni Hreggviðssyni, Jóni Grindvíkingi, Jóni Marteinssyni, Magnúsi í Bæðratungu, dómkirkjuprestinum og eiginkonu Arnasar – mér hefur yfirleitt fundist Snæfríður óskiljanleg –þó má kannski hugsa sér að hún sé ómerkilegri persóna en stundum hefur verið talið – en Arnas Arnaæus er ósköp daufgerður og það er hann beinlínis frá hendi höfundarins. Það er ekki á færi neins leikara að gæða hann lífi.
Í leikhúsinu fór ég að hugsa um nafn sem mér hefur ekki komið í hug lengi: Bertolt Brecht. Þetta er sýning sem er líkt og beint úr smiðju hans með tilheyrandi firðaráhrifum – V-Effekt var það kallað – og kannski hæg heimatökin þar sem báðir foreldrar Benedikts leikstjóra numu við Berliner Ensemble á sinni tíð. En kannski er notkun slíkra fjarlægðaráhrifa svo algeng núorðið að menn eru hættir að hugleiða Brecht í því sambandi.
Sjálfur er ég ekki frá því að ég hefði kosið að hafa aðeins meiri „períóðu“ í sýningunni – þetta er nú einu sinni frægasta sögulega skáldsaga á Íslandi – en hitt er svosem alveg tilraunarinnar virði.
Pólitíkin í sýningunni – og þessu verki Laxness – er svo kapítúli út af fyrir sig. Margir tóku öllu sem Halldór sagði sem heilögum sannleik, hversu fjarstæðukennt sem það var. Í bókinni er því meðal annars haldið fram að Kaupmannahöfn hafi verið byggð fyrir íslenskan auð. Það er mjög vitlaus kenning., enda getur Halldór þess sjálfur að sagnfræði verksins sé vafasöm. Það sem eldist miklu betur í verkinu eru raunir Jóns Hreggviðssonar og áralangur þvælingur hans milli valdsmanna meðan hann gránar og verður loks hvíthærður. Maður veit aldrei hvort Jón er morðingi eða ekki – en þessi mannlýsing er svo stórkostleg að Jón fer í hóp klassískra skálka bókmenntasögunnar.
Og eins og hans er von og vísa tókst Ingvari E. Sigurðssyni með eindæmum vel að túlka Jón í leiksýningunni. Það var eiginlega helst þegar hann var á sviðinu að maður lifði sig inn í leikinn – sem er kannski ekki tilgangurinn í Brecht-leikhúsi.
Bertolt Brecht. Kenningar hans um leikhús gengu meðal annars út á svokallaðan Verfremdungseffekt eða firðarárhif. Halldóri Laxness lá oft illa orð til annarra rithöfunda, en hann var hrifinn af Brecht.