Kiljan hefur aftur göngu sína í næstu viku.
Við erum að vinna efni sem við tókum upp með Guðjóni Friðrikssyni síðsumars.
Þá fórum við í Fossvogskirkjugarð og röbbuðum um skáld sem þar hvíla.
Þessi garður er ekki nálægt því eins frægur og kirkjugarðurinn við Suðurgötu, en hann er þó orðinn nokkuð gamall og sögufrægur – þarna hvíla til dæmis skáld eins og Steinn Steinarr, Þórbergur Þórðarson, Ólafur Jóhann Sigurðsson, Dagur Sigurðarson, Steinar Sigurjónsson, Hannes Sigfússon, Jónas Svafár, Ásta Sigurðardóttir, Jökull Jakobsson og Sigfús Daðason.
Þarna höfum við kreppuárin, skáldin sem lifðu kreppuna og fjölluðu um hana í verkum sínum, atómskáldin og bítnikka. Í þættinum fjöllum við um þetta fólk og sjáum og heyrum brot úr verkum sumra.
Svo er reyndar margt annað að finna í garðinum – til dæmis eru þarna leiði hermanna sem féllu á Íslandi í stríðinu og minnisvarðar um hermenn sem börðust hér við land og komu frá Kanada, Noregi, Bretlandi og Bandaríkjunum.
Í raun er Fossvogskirkjugarður býsna áhrifaríkur staður.
Steinn Steinarr hvílir í Fossvogskirkjugarði, bjó reyndar ekki langt þar frá. Leiði hans er fremur niðurnítt, eins og við Guðjón Friðriksson komumst að þegar við tókum upp efni fyrir Kiljuna.