Ég hitti meistara Vernharð Linnet stuttu fyrir jól fyrir utan útvarpshúsið.
Spurði hvort það hefðu komið út einhverjar góðar djassplötur.
Verharður sagði að platan Horn með Jóel Pálssyni væri afbragðs góð.
Ég tók hann á orðinu og keypti plötuna.
Það er rétt – hún er frábær.
Saxófónleikarinn Jóel er þarna að flytja verk eftir sjálfan sig með nokkrum helstu hljóðfæraleikurum landsins, það er sérstaklega skemmtilegt hvernig hjómborð eru notuð, píanó, rafmagnspíanó, Hammond og Moog. Á þau spila Eyþór Gunnarsson og Davíð Þór Jónsson.
Að auki leika á plötunni Einar Scheving á trommur og Ari Bragi Kárason á trompet og flygilhorn.
Sjálfur er ég hrifnastur af rólega ópusnum Keili. Það er dálítill Miles í honum. En þetta er allt flott.