Bresk lögregla notar flugumann sem laumar sér inn í raðir umhverfisverndarsinna og tekur þátt í að skipuleggja aðgerðir þeirra. Smátt og smátt verða mörkin óskýr og lögreglunjósnarinn veit í raun ekki hverjum hann tilheyrir.
Ýmislegt bendir til að þetta sé ekki einstakt dæmi – að lögreglan í Bretlandi sé með útsendara sína í ýmsum mótmælahópum.
Í Rússlandi var svonalagað alsiða á tíma keisastjórnarinnar og ýmsar sagnir um það. Frægustu lögreglunjósnararnir voru klerkurinn Gapon og náungi sem hét Evno Azef
Gapon fór fyrir mikilli göngu að Vetrarhöllinni í Sankti Pétursborg árið 1905. Þar var ætlaði fátækt fólk í borginni að færa keisaranum bænaskjal. Lögreglusveitir skutu á fólkið – upp úr því spratt tímabundið byltingarástand, eins konar forleikur að byltingunni stóru 1917.
Ári síðar komst upp um Gapon, félagar hans í hreyfingu Þjóðbyltingarmanna hengdu hann í sumarhúsi í mars 1906.
Einn af þeim sem hafði umgengist Gapon var Evno Azef. Það er dularfullur maður. Hann var gyðingur frá Hvíta-Rússlandi, fæddur 1869. Azef var hvort tveggja byltingarmaður sem lagði á ráðin um hryðjuverkaárásir og útsendari leynilögreglunnar Okhrana. Azef náði svo langt að sitja í miðstjórn flokks Þjóðbyltingarmanna – sem var helsta byltingaraflið á þeim árum – og starfaði þar meðal annars með Boris Savinkov, frægum byltingarmanni sem bolsévíkar myrtu síðar.
Azef lagði á ráðin um morð á mjög háttsettum mönnum, eins og til dæmis Sergei, föðurbróður keisarans, og Plehve, sem var innanríkisráðherra og þar af leiðandi yfirmaður lögreglunnar. En á sama tíma þáði Azef 1000 rúblur á mánuði fyrir að vera á snærum Okhrana.
Þetta var mikil flækja. Það fór að berast orðrómur inn í raðir byltingarmanna að Azef væri ekki allur þar sem hann væri séður en því var ekki trúað.
Það var ekki fyrr en 1909 að komst endanlega upp um hann. Þá flúði Azef til Þýskalands, vann fyrir sér með söng og sölu undirfatnaðar fyrir konur, en andaðist í Berlin 1918. Kona hans hafði ekkert vitað um tengsl hans við lögregluna, skildi við hann og flutti til Bandaríkjanna.
Þess má svo geta að rithöfundurinn Joseph Conrad var heillaður af sögu Azefs og þessu furðulega samkrulli lögregluvalds og byltingar. Hann notaði hana og morðið á Plevhe sem efnivið í skáldsögunni Under Western Eyes sem kom út árið 1911.
Klerkurinn, byltingarmaðurinn og lögreglunjósnarinn Gapon hengdur árið 1906.