Hvítabjarnartal Besta flokksins hefur alltaf verið vitleysa. Grín sem var kastað fram á fyrstu dögum framboðsins og hefur undið upp á sig. Gleymist illu heilli ekki. Besti flokkurinn kom, sá og sigraði í borginni en það var ekki vegna þess að háð hans um stjórnmálaflokka væri sérlega fyndið eða beitt, heldur aðallega vegna þessa að fólk var komið með ógeð á gömlu flokkunum.
Það væri kannski annað ef þetta væri liður í stærri hugmynd, til dæmis því að koma upp einhvers konar heimskautagarði. Húsdýragarðurinn er það sem kallast barnadýragarður – aðallega hentugur fyrir lítil börn – einhvers konar heimskautagarður gæti hins vegar dregið að ferðamenn og fullorðið fólk og hann mætti tengja vísindastarfsemi.
Svona garður þyrfti reyndar ekki að vera í Reykjavík – hann gæti alveg eins verið á Húsavík eða Akureyri.
Besta flokknum er svosem ekki að farnast verr við stjórn borgarinnar en öðrum, eða það verður ekki séð. Hann hefur allavega ekki reynt að fela raunverulega stöðu borgarinnar eða fyrirtækja henna. En stundum koma frá honum sem eru bara skrítnar – og alls ekkert fyndnar.
Þar má til dæmis nefna aukagjaldið fyrir öskutunnur sem standa 15 metra eða lengra frá umferðargötu. Margir borgarbúar munu lenda í því að borga talsvert fé vegna þessa. Sjálfur þyrfti ég að fara út að mæla – mér sýnist að ég gæti rétt sloppið en er þó alls ekki viss.