Kynlífið hefur alltaf verið lykilatriði í trúarbrögðum og þá sérstaklega niðurbæling hvatalífsins.
Við þekkjum munka og aðra trúmenn á miðöldum sem húðstrýktu sjálfa sig til að ráða niðurlögum líkamslostans.
Frægir eru dýrlingar sem gripu til örþrifaráða gegn kynhvötinni. Símon sat á súlu úti í eyðimörkinni, heilagur Antóníus faldi sig í helli til að forðast ásókn djöfla, kirkjufaðirinn Ágústínus glímdi við kynhvötina og tengdi hana erfðasyndinni – sem hafði geysileg áhrif á viðhorf kirkjunnar til kynlífs – heilagur Benedikt fleygði sér í þyrnirunna þegar lostinn sótti á hann.
Á Íslandi höfðum við okkar stóradóm þar sem syndugt fólk var beitt hroðalegum refsingum – aðallega þó konur.
Heittrúarmúslimar skipa konum að hylja líkama sinn frá hvirfli til ilja svo losti sé ekki vakinn að óþörfu.
Svo það er ekki furða þótt allt sé upp í loft í Krossinum. Það þýðir þó ekki að við þurfum að veita þessum fámenna en háværa söfnuði svona mikla athygli.
Veggmynd frá 1430 þar sem heilagur Benedikt sést fleygja sér í þyrnirunnann fremur en að gefa sig kynhvötinni á vald.