Daniel Hannan er Evrópuþingmaður sem alloft hefur komið til Íslands. Hann mærði mjög efnahagskerfið sem hér var við lýði stuttu fyrir hrun, sagði að Íslendingar væru bestu lærisveinar Margrétar Thatcher, enda hefðum við góða fyrirmynd í sögupersónunni Bjarti í Sumarhúsum.
Nú er Hannan kominn á Bandaríkjamarkað. Hann er farinn að tjá sig á sjónvarpsstöðvum eins og Fox News og svo er hann búinn að skrifa bók fyrir hinn stóra markað vestra.
Hún nefnist The New Road to Serfdom – það er náttúrlega tilvitnun í fræga bók eftir Hayek.
Hayek varaði við kommúnismanum, en Hannan telur að í Evrópu séum við á leið að nýju ánauðarsamfélagi.
Þetta fellur í góðan jarðveg sums staðar í Bandaríkjunum og Hannan uppsker ríkulega.
Hann varar Bandaríkjamenn við að þeir séu að fara sömu leið og Evrópa undir stjórn Obamas.
En hirðir þá náttúrlega ekki um að nefna að stór hluti Bandaríkjamanna hefur varla aðgang að heilsugæslu, að menntunin sem snauðu fólki í Bandaríkjunum er boðin er skammarleg, að að minnsta kosti 50 milljón Bandaríkjamenn lifa undir fátæktarmörkum, að vinnandi fólk í Bandaríkjunum nýtur mjög takmarkaðra réttinda, fær varla sumarfrí – og að nánast hvergi í heiminum er ójöfnuður meiri og hefur farið mjög vaxandi. Bankar og auðhringir hafa algjört kverkatak á samfélaginu.
En Hannan nýtur sín vel innan um Glen Beck og aðra slíka stjórnmálaskýrendur, þá sem hafa ógurlegar áhyggjur af þessu lágmarks sjúkratryggingakerfi sem Obama hefur barist fyrir – og telja það vera argasta sósíalisma.