Það er fagnaðarefni ef þýska flugfélagið Air Berlin ætlar að fjölga ferðum sínum hingað.
Ég hef ferðast talsvert með þessu félagi og hef ekkert nema gott um það að segja.
Flugvélakosturinn er nýr, ferðanetið er bæði stórt og þétt og snýst aðallega í kringum borgir í hjarta Evrópu, Düsseldorf, Berlín og München– til dæmis hef ég komist greiðlega út á grísku eyjarnar með því að fljúga með Air Berlin frá Þýskalandi. Fá flugfélög bjóða upp á ferðir beint þangað. Félagið flýgur lika til áfangastaða í Afríku, Asíu og Ameríku.
Það er í raun miklu þægilegra að fljúga gegnum Þýskaland en í gegnum London – þar sem eru hryllilegir flugvellir og dýrt og seinlegt að komast til og frá þeim.
Svo er ekki vanþörf á samkeppni fyrir íslensku flugfélögin.
Annað þeirra, Icelandair, er ágætt flugfélag, öruggt og að mestu laust við seinkanir, en fargjöldin eru orðin alltof há.
Hitt, Iceland Express, er náttúrlega í tómum vandræðum, maður þorir varla að kaupa farmiða hjá þvi, fyrir utan hvað eignarhaldið er fráhrindandi.