Stundum geta menn talað frjálslega, líka þótt þeir séu Franz páfi, Styrmir Gunnarsson eða Hans Rosling.
Allir þessir menn hafa orðað það með einum eða öðrum hætti að þriðja heimsstyrjöldin sé á einhvern hátt byrjuð. Það er, eins og ég segi, mjög frjálslegt.
Við erum að lifa tíma þegar er ófriðlegt í Miðausturlöndum, það er ekki í fyrsta skiptið. Þar höfum við á síðstu áratugum séð margar innrásir Ísraela í Líbanon, síendurtekið sprengjuregn á Gaza, stórstyrjöld milli Írans og Íraks þar sem talið er að 1,2 milljónir manna hafi látið lífið. Við höfum séð tvær innrásir í Írak, 1991 og 2003.
Og aðeins austar var innrás Sovétmanna í Afganistan 1979, hún var gerð til að styrkja leppstjórn sem átti í vök að verjast í borgarastríði. Það var þá að Bandaríkin hófu að styðja sveitir vígamanna til að berjast gegn Sovétmönnum. Síðar tóku Bandaríkin við að herja í Afganistan.
Það var barist í Evrópu á árunum 1991-1999, á Balkanskaga. Mannfallið í þeim stríðum, sem voru háð af ógurlegri grimmd, er talið hafa verið nærri 150 þúsund manns. Þetta skapaði líka óskaplegan flóttamannavanda.
Á þessum tíma háðu Rússar líka blóðugt og ógeðslegt stríð í Tsétséníu. Þar voru framin skelfileg grimmdarverk. Óbreyttir borgarar þjáðust mikið, eins og í Balkanstríðunum.
Svo má nefna Mikla Afríkustríðið sem háð var í Kongó 1998-2003. Þetta var framhald af fyrri átökum sem höfðu verið mjög mannskæð. Talið er að allt að 5,4 milljónir manna hafi látið lífið vegna þessa stríðs – og aftur voru það óbreyttir borgarar sem urðu verst úti.
Þetta eru bara nokkur dæmi um styrjaldir sem ættu að vera okkur öllum í fersku minni.
Eins og ég segi, menn tala frjálslega um heimsstyrjöld, vegna þess að það eru átök við ofsatrúarhreyfingu í Írak, vegna þess að Ísraelar sprengja á Gaza og vegna þess að Rússar sýna yfirgangssemi í Úkraínu. Allt eru þetta alvarlegir atburðir, en það er fráleitt að tala um að heimurinn sé hættulegri en nokkru sinni fyrr eins og sumir eru farnir að gera af þessu tilefni.
Og heimsstyrjöld er þetta örugglega ekki ekki – og heimsstyrjöldin er heldur ekki að byrja – og ekki heldur þótt menn séu með hugann við stríðið sem hófst 1914. Staðreyndin er sú að dauðsföllum völdum stríðs hefur farið mjög fækkandi – og blóðugustu stríðin sem nú eru háð eru borgarastríð, ekki stríð milli þjóða, eins og í Sýrlandi, Írak og í Mexíkó þar sem víða er nánast styrjaldarástand vegna eiturlyfja.