Í dag eru 75 ár liðin frá upphafi seinni heimstyrjaldarinnar – innrás Þjóðverja í Pólland. Hún var 1. september 1939.
Minna má á að hún var gerð undir því yfirskini að Þjóðverjar væru að koma til aðstoðar þýskættuðu fólki innan pólsku landamæranna sem væri hrakið og smáð.
Og líka má minna á að annar her gerði ekki síður freklega innrás inn í Pólland stuttu síðar, 17. september 1939. Það var Sovétherinn.
Þetta var gert í skjóli griðasáttmála Hitlers og Stalíns. Og Stalín hélt áfram landvinningum sínum með því að fyrst heimta herstöðvar í Eystrasaltsríkjunum sama haust, Sovétherinn réðst svo inn í Eistland, Lettland og Litháen í júní 1940.
Það vill semsagt gleymast að árásaraðilarnir í seinni heimstyrjöldinni voru tveir. Ekki hentaði að ræða um það þegar Sovétríkin voru komin í bandalag við Breta og Bandaríkjamenn síðar í stríðinu. Og þess vegna hefur árásarstefna Sovétríkjanna á þessum tíma legið í þagnargildi – en meira talað um að þau hafi komið og frelsað Evrópu undan oki nasismans.
En Pólverjar þjáðust mikið. Á báðum hernámssvæðunum, því þýska og því sovéska, hófust feikileg grimmdarverk. Nasistar reistu sínar fanga- og útrýmingarbúðir en Sovétmenn myrtu fólk en sendu aðra í þrælkunarbúðir í austri. Árið 1940 í Katynskógi drápu þeir svo blómann af liðsforingjasveit og menntastétt Póllands.
Þýskir og sovéskir hermenn heilsast í Póllandi – eftir innrás þýsku og sovésku herjanna 1939. Jafnóðum hófust hryllileg grimmdarverk á báðum hernámssvæðunum.