fbpx
Föstudagur 18.júlí 2025
Eyjan

Sjoppukallarnir og Helgarpósturinn – hver vill taka við af Reyni?

Egill Helgason
Sunnudaginn 31. ágúst 2014 11:59

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þegar ég var ungur blaðamaður vann ég á Helgarpóstinum. Núorðið er ljómi yfir nafni þess blaðs – og það er ekki skrítið. Þarna voru fetaðar nýjar slóðir í íslenskri blaðamennsku á tíma þegar öll blöðin voru undir hæl stjórnmálaflokka. Þarna var stunduð rannsóknarblaðamennska, flett ofan af spillingu, efnistökin voru fersk, í blaðið skrifuðu margir frábærir ungir pennar, rithöfundar og menntamenn. Blaðið kom út á fimmtudögum – fyrst var það þannig að ungt fólk í Reykjavík beið í ofvæni eftir því að fá blaðið í hendur. Þetta var í rauninni málgagn þess.

En það var ekki auðvelt að halda úti blaðinu. Oft fékk maður seint og illa útborgað. Framkvæmdastjórinn kom til manns á föstudegi og spurði hvort 2000 kall myndi duga yfir helgina. Þetta var rétt eftir myntbreytingu. Og það var sífellt vesen með eigendur.

Í fyrstu var Helgarpósturinn reyndar tengdur Alþýðuflokknum, en það var á tíma Vilmundar Gylfasonar, svo það hefti ekki frelsið – það var eiginlega þveröfugt. Svo voru þau tengsl rofin og þá fóru að koma inn í hópinn menn sem við kölluðum stundum „sjoppukalla“.

Þetta voru kaupsýslumenn sem vildu eignast hlut í blaði, ekki til að hagnast á því, heldur til þess að ná áhrifum og stöðu í samfélaginu sem þá dreymdi um. Kannski var þetta of óvirðulegt heiti, það voru auðvitað þessir menn sem gerðu blaðinu kleift að koma út. Oft heyrði maður af einhverjum átökum bak við tjöldin, við blaðamennirnir vissum í sjálfu sér minnst af því.

Ég var hættur á Helgarpóstinum þegar varð hart stríð milli hópa sjoppukalla um blaðið, blaðamennirnir urðu svo skelkaðir að þeir fóru í verkfall – og viti menn, blaðið lagði upp laupana. Þetta var 1988. Helgarpósturinn lifði í 9 ár. Hann var endurvakinn 1994 til 1997, en það var allt annað blað.

Nú eru atburðir í kringum DV sem minna dálítið á þetta. Ritstjórinn og einn eigandinn, Reynir Traustason, virðist hafa gengið ansi langt í að halda blaðinu á floti. Hann hefur þegið lán frá mjög umdeildum útgerðarmanni. Með fylgja ásakanir um að blaðinu hafi verið beitt í átökum milli útgerðarmanna í Vestmannaeyjum. Manni skilst að einn af fyrrverandi blaðamönnum DV ætli að upplýsa um þessi mál fyrir fjölmiðlanefnd eftir helgina.

Auðvitað veikir þetta traustið til blaðsins og stöðu ritstjórans – á sama tíma og verið er að herða eigendatökin á Fréttablaðinum og Morgunblaðið er í höndum stórútgerðarfólks sem beitir því grimmt í sínu áróðursstríði.

Maður saknar tíma þegar blöð voru í höndum sómamanna eins og Haraldar Sveinssonar, sem var stjórnarformaður og framkvæmdastjóri Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins og þeirra sem áttu blaðið á tíma hans. Og flokksblöðin – ja, að minnsta kosti vissi maður hver stefnan var og hvað lá að baki skrifunum.

Einn af „sjoppuköllunum“ sem ásælist DV virðist aðallega vera í hefndarleiðangri gegn Reyni Traustasyni. Það boðar ekki gott. Hvað eiga blaðamennirnir að gera? Eiga þeir að fara í verkfall eins og blaðamennirnir á Helgarpóstinum í eina tíð eða eiga þeir að bíða átekta? Reynir Traustason hverfur líklega úr ritstjórastóli á DV á næstu dögum – við þessar aðstæður getur ekki verið spennandi að taka við starfi hans? Eða hver vill gera það?

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 6 dögum

Sakar stjórnarandstöðuna um vanþekkingu og rekur sögu 71. gr.

Sakar stjórnarandstöðuna um vanþekkingu og rekur sögu 71. gr.
Eyjan
Fyrir 6 dögum

„Fullorðið fólk þarf að kunna að taka tapi í kosningum og una öðrum að fara með völdin“

„Fullorðið fólk þarf að kunna að taka tapi í kosningum og una öðrum að fara með völdin“