fbpx
Mánudagur 14.júlí 2025
Eyjan

Seðlabankinn og pólitískar ráðningar

Egill Helgason
Þriðjudaginn 12. ágúst 2014 20:36

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það er forvitnilegt að skoða hverjir hafa verið seðlabankastjórar á Íslandi. Í upphafi, þegar bankinn var stofnaður 1961, á tíma Viðreisnarstjórnarinnar voru þeir þrír. Jón G. Maríasson hafði verið bankastjóri Landsbankans, en Jóhannes Nordal var menntaður í félagsvísindum – hann var maður Viðreisnarstjórnarinnar en hélt áfram í bankanum allar götur til 1993.

Skrítnara var að Vilhjálmur Þór skyldi vera gerður að bankastjóra. Hann hafði ekki hagfræðimenntun, en var fyrrverandi forstjóri Sambandsins og hafði setið í Utanþingsstjórninni á stríðsárunum. En það var semsagt talið nauðsynlegt að SÍS og Framsókn kæmu að bankastjórninni þótt Framsóknarflokkurinn væri ekki í ríkisstjórn.

1966 verður Sigtryggur Klemensson bankastjóri og er í bankanum til 1971. Hann var innanbúðarmaður í Framsóknarflokknum, hafði veitt forstöðu Skömmtunarskrifstofu ríkisins en var síðar ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu. Ári síðar kemur í bankann Davíð Ólafsson, hann var hagfræðimenntaður, en hafði verið fiskimálastjóri um langt skeið – Davíð sat á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn árin áður en hann kom í bankann.

1971 sest í stól Seðlabankastjóra Svanbjörn Frímannsson, en er þar aðeins um tveggja ára skeið. Svanbjörn kom úr bankakerfinu en var SÍS-maður og Framsóknarmaður. 1974 gerast þau tíðindi að Alþýðubandalagið – kommarnir eins og það var kallað – fékk í fyrsta sinn bankastjóra. Það var Guðmundur Hjartarson sem sat til ársins 1984. Þetta var á tíma vinstri stjórnar. Guðmundur hafði ekki sérstaka menntun til að gegna þessari háu stöðu.

Tómas Árnason kom inn í bankann 1985 og var til 1993. Tómas hafði verið fjármálaráðherra og síðar viðskiptaráðherra fyrir Framsóknarflokkinn. Tveimur árum síðar kom Geir Hallgrímsson svo í bankann, það var í fyrsta sinn að fyrrverandi forsætisráðherra settist í þessa stöðu. Geir hafði verið formaður Sjálfstæðisflokksins. Hann var ekki bankanum nema fjögur ár, til 1990.

Við stöðu Geirs tók Birgir Ísleifur Gunnarsson sem hafði líka verið ráðherra fyrir Sjálfstæðisflokkinn og að auki borgarstjóri í Reykjavík, líkt og Geir. Birgir sat í bankanum frá 1991-2005. Með honum sat stutta hríð, 1993-1994, Jón Sigurðsson sem hafði verið forstjóri Þjóðhagsstofnunar og ráðherra fyrir Alþýðuflokkinn.

Þá komu þrír Framsóknarmenn í röð í bankann en staldra allir stutt við. Steingrímur Hermannsson, fyrrverandi forsætisráðherra, frá 1994-1998; Finnur Ingólfsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra, frá 2000-2002 og loks Jón Sigurðsson, áður rektor á Bifröst, frá 2003-2006. Jón var sá eini þeirra sem hafði hagfræðimenntun.

Davíð Oddsson settist svo í bankann eins og frægt er þegar hann hætti í stjórnmálum 2005. Hann hrökklaðist úr bankanum 2009. Með honum. Á sama tíma og Davíð voru bankastjórar tveir hagfræðingar, Eiríkur Guðnason og Ingimundur Friðriksson.

Norðmaðurinn Sven Harald Öygard var seðlabankastjóri 2009 og þar til Már Guðmundsson tók við seinna það ár.

Eins og sjá má hafa einatt verið þrír bankastjórar í Seðlabankanum. Það hefur þó yfirleitt verið af pólitískum ástæðum – einn eða fleiri af þessum bankastjórum hafa verið ráðnir á pólitískum en ekki faglegum forsendum.

Því má spyrja hvað það sé í dag sem gæti valdið því að nauðsynlegt sé að hafa þrjá bankastjóra, eins og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra talaði um í fréttum. Eru verkefnin virkilega svo viðamikil – eða snýst þetta kannski fyrst og fremst um pólitík eins og svo oft í sögu Seðlabankans?

3963e3d573-300x199_o

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt