Ísland er hvorki best í heimi né alveg ómögulegt.
Umræðan á það til að vera í ökkla eða eyra. Stundum finna Íslendingar mikið til sín, en svo er allt í einu komið svartnætti. Þá getum við ekki neitt – eða það má helst skilja.
Sigurður Már Jónsson, upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar, skrifar grein þar sem hann tínir saman ýmsar kannanir sem sýna að Ísland stendur mjög framarlega. Á sama tíma er gamall kollegi Sigurðar úr fjölmiðlum, Gunnar Smári Egilsson, að stofna flokk sem snýst um að Ísland eigi að ganga Noregi á hönd. Íslendingar kunni ekki fótum sínum forráð.
Ísland er að sönnu friðsælt land, hér er blómleg menning, góður staður til að ala upp börn, öruggt umhverfi, stutt í fallega náttúru. Lífskjörin hér eru ágæt, við erum frjáls, getum sótt okkur menntun víða um heim, hér er tjáningarfrelsi og þjóðin er almennt nokkuð umburðarlynd. Fólk er hraust og nýtur langlífis. Ferðamenn flykkjast til Íslands og líkar vel við það sem þeir sjá.
Gallarnir vega ekki eins þungt. Þar er fyrst og fremst að nefna óstöðugt efnahagslíf sem gerir það að verkum að við erum á ýmsum sviðum eftirbátar nágrannalandanna – þeirra sem við berum okkur helst við. Við komum okkur upp kerfum sem vaxa okkur yfir höfuð og við eigum erfitt með að breyta. Þarna má nefna landbúnað, sjávarútveg, peningakerfið – og að nokkru leyti menntakerfið. Hagsmunaaðilar hafa mikil völd.
Hér skortir stjórnfestu, að sumu leyti er fámenni um að kenna, það vantar hæft fólk og stofnanir eru of veikburða. Þar sem er svo fátt fólk getur frænd- og vinahygli verið vandamál – spillingin sem hér fyrirfinnst er aðallega fólgin í þessu. Stjórnmálamenningin er léleg – ráðherrum er alltof tamt að líta á embætti sín sem einhvers konar lén. Þjóðfélagsumræðan er þraskennd – það er mjög auðvelt að afvegaleiða hana og alls kyns draugar vaða uppi ár eftir ár.
Almennt hafa Íslendingar gott af samskiptum við útlönd. Það er ósköp fátt sem við finnum upp sjálf, sér-íslenskar leiðir hafa ekki gefist sérlega vel og yfirleitt eru vandamál okkar þekkt meðal annarra þjóða – þótt stundum megi ætla að stjórnmála- og þjóðfélagsumræðunni að við séum algjörlega einstök.