Er hugsanlegt að íslenskri tungu og íslenskri menningu stafi ógn af erlendum efnisveitum sem dreifa sjónvarpsþáttum og kvikmyndum nokkuð ódýrt, þar sem íslenska heyrist aldrei, þar sem enginn er íslenskur texti og þar sem íslenskt efni er ekki með?
Og það sem meira er – fátt bendir til þess að þetta breytist.
Íslenski markaðurinn er einfaldlega of lítill til að erlendir aðilar hafi áhuga á honum. Það kann að gerast í leiðinni að fólk hætti að horfa á íslenskar sjónvarpsstöðvar sem eru að reyna að framleiða íslenskt efni – en á sama tíma eru íslensku efnisveiturnar, hjá Símanum og Vodafone, mjög veikburða.
Þetta kann að verða miklu alvarlegra mál en ólöglegt niðurhal.
Á mbl.is birtist í gær frétt um að hætt hefði verið við framleiðslu á nýrri þáttaröð af Sönnum íslenskum sakamálum vegna ólöglegs niðurhals. Af þessu spratt nokkuð merkileg umræða á Facebook- síðunni Fjölmiðlanördar, við skulum sjá brot úr henni:
leiðrétting: *hætt við vegna þess að enginn horfir á sjónvarp lengur þar sem þú getur stjórnað þinni eigin dagskrá í dag og framleiðendurnir vilja ekki aðlagast breytingum*
— — —
Ja, ég myndi nú halda að íslenskir framleiðendur efnis séu í dálitlum vandræðum. Íslensku efnisveiturnar eru veikar og vanþróaðar – en yfir markaðinn flæðir efni á ITunes, Netflix og HuluPlus. Íslenskar útgáfur af þessum veitum eru ekki til og verða það sennilega ekki, vegna þess hvað markaðurinn hér er smár. Þannig að þetta er ekki bara spurning um aðlögun.
— — —
Ég held að íslendingar séu alveg tilbúnir að greiða fyrir gott íslenskt sjónvarpsefni en samt ekki á sama hátt og áður. Við þurfum íslenskt VOD sem er þægilegt að finna efni í og án mánaðargjalds (kröfur sem netveitunar uppfylla ekki núna).
— — —
Hugsaði það sama þegar ég las þessa grein. Í maí var sagt frá því að yfir 20 þúsund heimili KAUPA aðgang að efni á Netflix (sem auðveldlega má sækja frítt á netið). Að tilheyra örmarkaði sem stórar efnisveitur sýna lítinn áhuga á að semja formlega við er hugsanlega mun válegra fyrir innlenda kvikmyndagerð en ólöglegt niðurhal. Furðulegt að það sé ekki minnst einu orði á það í greininni, hún gæti allt eins hafa verið skrifuð fyrir fimm árum.
— — —
Umhverfið er bara ómögulegt á allan hátt. Það þarf að semja sérstaklega við hverja einustu erlendu efnisveitu um allar tegundir dreifingar. Það eru semsagt sér samningar með sér kostnaðarauka fyrir sjónvarpsrétt, VOD rétt og svokallaðan SVOD rétt aem leyfir þér að borga eitt mánaðargjald fyrir bunka af efni. Stærð markaðarins, ómögulegur gjaldmiðill og óhagstætt skattaumhverfi er til þess að fullkomin VOD þjónusta sambærileg Netflix þyrfti að kosta tugþúsund á mánuði bara til að standa undir kostnaði. Á sama tíma er erfitt fyrir fyrirbæri eins og Netflix að koma inn út af sömu ástæðum og ofan á það bætist að þeir þyrftu að semja við íslenskar efnisveitur sem nú þegar eru með dreifingasamninga fyrir flestallt erlent efni á Íslandi. Gætir t.d. ekki leigt Greys Anatomy á islensku Netflix því að Stöð 2 á réttinn.
Þetta er basically fokked og eiginlega ekkert sem hægt er að gera fyrr en markaðurinn þroskast eftir nokkur ár.
— — —
Við erum bara of lítil til þess að íslenskar veitur gangi upp peningalega. Eini leiðin til þess að að fá svona þjónustu á Netflix verði er að allar íslenskar þjónustur leggi niður starfsemi og Netflix opni aðgang fyrir íslendinga.
— — —
Alls ekki sammála. Íslensku veiturnar (Vodafone og Síminn) ganga mjög vel. Það er ekki markaður fyrir þjónustu á Netflix verði. Netflix mun ekki opna hér nema með lagabreytingu sem ég sé ekki gerast og í raun óþarfi fyrir Netflix að opna fyrir íslenskan markað nema í co-opi með fjarskiptafyrirtæki.
— — —
Þetta er náttúrulega í raun ekki sanngjarn né raunhæfur samanburður. Jú, auðvitað er neyslumynstur að breytast og Netflix er betra en allt sem er til á Íslandi og Íslenskar VOD þjónustur prump í samanburði, en þarna ertu að bera saman leikmenn sem sitja við fullkomlega ósambærilegt borð. Annar aðilinn starfar á gríðarlega litlu markaðssvæði og þarf að semja um gríðarlega dýra dreifingarsamninga við erlend stórfyrirtæki og greiða fyrir það í ónýtum gjaldmiðli og borga af því háa skatta og gjöld, hinn aðilinn starfar á risavöxnu markaðssvæði, er í þannig stöðu að hann getur keyrt öll verð niður og selt vöru nálægt kosnaðarverði og þannig fengið tekjur til baka á gríðarlegri magnsölu yfir langan tíma. Samanburðurinn er irrelevant.
Eins og ég og fleiri höfum sagt þá er issjúið mikið stærra en bara latar efnisveitur. Umhverfið er bara ómögulegt og mun halda áfram að vera ómögulegt þangað til við tökum upp annan gjaldmiðil, annað skattkerfi, önnur lög og fjölgum okkur um svona 8 milljónir.