Merkilegt er hvað við mennirnir erum ófærir um að læra af reynslunni – eða kannski erum við fangnir í kerfum sem eru okkur yfirsterkari.
Nú bendir til dæmis margt til þess að atburðirnir frá því fyrir hrun 2008 séu að endurtaka sig víða um heim.
Þetta er hið svokallaða boom and bust ferli – sem felur í sér að hagkerfið þenst óskaplega út í nokkurn tíma en skreppur svo saman.
Einhvern veginn skyldi maður halda að stöðugleiki væri æskilegri en þetta – að það væri allt til vinnandi að koma á stöðugum efnahag.
En kerfið virðist ganga út á að blása upp bólur – það er betra í því en að skila raunverulegri verðmætaaukningu.
Hér á Íslandi horfum við upp á húsnæðisbólu, það er gert ráð fyrir að húsnæðisverð hækki árlega um meira en 7 prósent næstu árin.
Það eru furðulegar tölur – og helgast að nokkru leyti af spákaupmennsku sem náttúrlega er orðin eitt helsta böl Vesturlanda.
Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn varar við hruni á húsnæðismarkaði á alþjóðavísu og segir að hækkanir eins og er getið hér að ofan ógni efnahagslegum stöðugleika.
Um þetta má lesa í Financial Times.
AGS telur að grípa þurfi í taumana, en þá er varla annað til ráða en vaxtahækkanir og takmarkanir á útlánum.
En stjórnmálamönnum líður vel í bóluástandi – og þeir eru ekki gjarnir á að grípa í taumana. Dæmin sanna þetta. Uppgangurinn sem hefur verið í Bretlandi síðustu misserin eftir nokkuð langt samdráttarskeið stafar til dæmis að miklu leyti af því að útlánaheimildir til húsnæðiskaupa voru rýmkaðar. Og bönkum þykir almennt þægilegra að lána til kaupa á steinsteypu en til nýrra fyrirtækja – sem þó gætu farið að búa til einhver verðmæti.