Slóvenski heimspekingurinn Slavoj Zizek skrifar kröftuga grein í London Review of Books undir yfirskriftinni Barbarism with a Human Face og fjallar um Úkraínu og Rússland.
Zizek fer víða eins og honum er lagið, en hann rekur atburðina meðal annars til uppgangs þjóðernisstefnu í Rússlandi – og segir að hún sé í anda Stalíns, en ekki Leníns.
Því hafi verið kaldhæðnislegt þegar Úkraínumenn tóku niður styttur af Lenín.
Zizek fjallar líka um gælur Pútínstjórnarinnar við fasisma – og segir að allt ný-fasíska hægrið í Evrópu sé á bandi Pútíns. Mótmælin á Maidan torgi séu viðbrögð við þessum myrka hugmyndastraumi sem Pútín hafi endurvakið.
Þessi stóri hugsuður heldur svo áfram og skoðar heim þar sem hugmyndir upplýsingarinnar eru á undanhaldi – það sem er súmmað upp í hugsjónum frönsku byltingarinnar, égaliberté. Jafnrétti, frelsi.
Það sem Zizek hefur mestar áhyggjur af er „barbarismi með mannlegri ásýnd“, eins og hann kallar það, pópúlismi sem beinist að innflytjendum. Þegar menn eru til í að kasta fyrir róða hugsjónum okkar um frelsi og lýðræði – í baráttunni gegn öflum sem þeir segja að ógni frelsi og lýðræði.
Þeir sem telja sig vera að vernda Evrópu fyrir innflytjendum eru hin raunverulega ógn, ekki innflytjendurnir, skrifar Zizek.
Evrópa geti lært af mótmælendunum á Maidan-torgi og vera tilbúin til að koma til móts við þá. Það þurfi að halda lifandi hugmyndinni um égaliberté.
Zizek segir að önnur barátta sé líka að byrja. Þar séu fremstir þeir Rússar sem séu á móti þjóðernisstefnu Pútíns og sjái að hún er valdatæki. Það þurfi að koma upp tengslum milli þessara afla og frelsisaflanna í Úkraínu þar sem er lögð áhersla á bræðralag, það sem sameinar en sundrar ekki.
Annars stöndum við frammi fyrir þjóðernissinnuðum átökum sem er stýrt af ólígörkum – slíkt valdatafl höfði ekki til neins sem vill stjórnmál sem byggja á frelsi og lýðræði.
Slavoj Zizek – hann var tvívegis gestur í Silfri Egils og fór á kostum í bæði skiptin.