Er vit í þeirri hugmynd landbúnaðarráðherra að fækka sláturhúsum á Íslandi niður í tvö? Þannig að væntanlega yrði eitt norðanlands og eitt sunnanlands?
Einhvern veginn finnst manni stangast á við hugmyndir sem nú eru uppi í matvælaframleiðslu og birtast í „beint frá býli“ og „slow food“ – þar sem er lögð áhersla á að stytta leiðina frá framleiðenda til neytenda, að fólk viti hvaðan landbúðaarafurðirnar koma, að lögð sé áhersla á uppruna þeirra og fjölbreytileikann í framleiðslunni.
Tvö stór sláturhús þangað sem búpeningur alls staðar að á landinu er keyrður með bílum? Er því ekki haldið fram að slík ferðalög fari illa með sláturdýrin?
Þarna næst ábyggilega einhver hagræðing, rétt eins og það væri vissulega hagræðing ef bændum fækkaði og bújarðir yrðu stærri. En þar blandast líka inn í þjóðernislegar og að sumu leyti rómantískar hugmyndir um búsetu í landinu – þær njóta mikils fylgis meðal landsmanna.
En áherslan í matvælageiranum er að færast í þveröfuga átt við hið vakúmpakkaða eða frosna kjöt sem enginn veit hvaðan kemur. Við sjáum þetta til dæmis á hinum geysivinsælu matarmörkuðum sem hafa verið haldnir í Hörpu síðustu misserin. Þar kynnist maður góðri lókal framleiðslu úr íslenskum sveitum. Maður fær að vita hvaðan afurðirnar eru – það er mikill kostur.
Nú ætla ég ekki að þykjast vera sérfræðingur á þessu sviði – en minni sláturhús, nær bændum og framleiðendum, hjóta að hafa mikla kosti þegar slík viðhorf eru jafn útbreidd og raun ber vitni. Ein hugmyndin er að koma upp bifreiðum með sláturvagna – hreyfanlegum sláturhúsum. Gæti það verið kostur meðfram því að rekin eru stærri sláturhús?
En almennt eigum við að fara þá leið sem minnkar einsleitni – eykur fjölbreytni.