Einn okkar helsti sérfræðingur í utanríkismálum, Einar Benediktsson, fyrrverandi sendiherra, skrifar grein um stöðuna í alþjóðamálum í Fréttablaðið í dag. Einar tekur mið af síðustu atburðum í Úkraínu og segir að vonandi beri aðgerðir til að hefta framrás Rússa árangur, en hvorki Evrópuríki né Bandaríkin séu tilbúin að fara í stríð vegna Úkraínu:
En það kann að vera borin von, að einfaldar lausnir finnist í gömlum deilumálum og flækjast inn í austur-vestur samskiptin fyrrum og upplausn Sovétríkjanna. Þar er ekki að finna forsendur fyrir því að nú leiði til nýs kalds stríðs. Afskrifa verður þann möguleika að vopnuð átök verði vegna Úkraínu. Ekkert Evrópuríki er reiðubúið til að heyja stríð vegna þessarar deilu. Varnir NATO-ríkja, sem njóta tækniyfirburða Bandaríkjanna, útiloka árás á þau enda yrði slíkt tilefni heimsstyrjaldar.
Einar fjallar líka um hlut Kínverja á tíma þegar Bandaríkin og Atlantshafsbandalagið hafa minni áhuga á norðurslóðum en var á tíma Kalda stríðsins:
Því var það væntanlega, að Kínverjar hafa talið sér leik á borði í að flétta Ísland inn í sín áform enda ekki skort áeggjan af æðstu stöðum. Kínverjar eru þrotlausir í að nýta jarðgæði um heim allan. Það á við um námavinnslu á Grænlandi, olíu- og gasvinnslu á hafsbotni hér um kring og ekki hvað síst í mikilli hafnaraðstöðu á Íslandi vegna hinnar nýju norðaustur-siglingaleiðar um heimskautið. Fari svo að Rússar drottni í norðri ætti bandalag þeirra og Kínverja að duga þeim síðarnefndu til einhvers.
Síðan veltir Einar því fyrir sér hvað þessi þróun þýðir fyrir Ísland og stöðu þjóðarinnar á alþjóðavettvangi. Mat hans er býsna raunsætt:
Stefnumörkun í norðurskautsmálum er tækifæri að ná aftur virkari samvinnu við Bandaríkin um gagnkvæm öryggis- og varnarmál, svo sem nauðsynlegt er. Önnur hlið þjóðaröryggis lýtur að hinu efnahags- og viðskiptalega og þar er rétt ólokið því verki að samningur sýni svart á hvítu hvaða kjör bjóðast við aðild að Evrópusambandinu.