fbpx
Laugardagur 13.september 2025
Eyjan

Afglapavæðing Alþingis

Ritstjórn Eyjunnar
Sunnudaginn 30. apríl 2017 20:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Víni skal til Haga haldið.
Herðir Bakkus ógnarvaldið.
Útúrdrukkinn eymdarlýður
eftir borgarstrætum skríður.

Nú er „brennivín í búðir“ gengið aftur á Alþingi og berst ógæfudaunninn af því um allt land.

Óumdeilt er að áfengisneysla er langmesta þjóðarböl okkar Íslendinga. Svo stiklað sé á stóru eru afleiðingar hennar mikill hluti umferðarslysa og líftjóna á þeim vígvelli, ógeðfelld drykkjulæti, fjölbreytt ofbeldi og morð, áfengissýki, heila- og lifrarskemmdir, krabbamein, nauðganir, skilnaðir, sundraðar fjölskyldur, þjáningar barna og hundruð ætlaðra fósturskaða árlega, vegna drykkju móður á meðgöngu. Tjón samfélagsins er ægilegt og mest bitnar það á fjársvelti heilbrigðiskerfisins og löggæslu á riðandi brauðfótum. Allar rannsóknir staðfesta að aukið aðgengi að þessu eiturlyfi eykur neyslu. Það er líka viðurkennt að ÁTVR hefur sinnt sínu hlutverki með sóma, hvað varðar aðgengi og vöruúrval.

Það er eitthvað mikið að heilastarfsemi þess fólks sem nægir ekki sex virkir dagar í viku til að nálgast sitt eitur.

Haldið til Haga

Það er heldur lágt risið á Alþingi nú um stundir og ekki hækkar það með þessu snargalna tilræði við öll viðurkennd lýðheilsumarkmið. Minna má á orð landlæknis og fjölmargra samtaka sem láta sér annt um heilbrigði og velferð landsmanna, nú síðast bæjarstjórn Hafnarfjarðar.

Í nýlegri skoðanakönnun um þetta efni kom fram að 61,5% svarenda voru andvíg „brennivín í búðir“ en aðeins 22,8% voru í föruneyti Bakkusar. Sorglegt er að við Vestfirðingar, ofan á allar aðrar hremmingar, þurfum að axla ábyrgð á fyrsta flutningsmanni frumvarpsins, Teiti Birni Einarssyni frá Flateyri. Enginn hér um slóðir minnist þess að í prófkjöri flokks hans eða kosningabaráttu hafi Teitur tjáð sig um það að hans helsta og fremsta hjartansmál væri, ef hann næði kjöri, að fjölga stútum undir stýri og auka á óhamingju, heilsutjón og dauðsföll í samfélagi okkar. Einhver hlýtur þó tilgangurinn að vera, meiri en frelsiskjaftæði?

Þórarinn Eldjárn hitti þar naglann snyrtilega á höfuðið, þegar hann samdi af þessu tilefni máltæki fyrir Alþingi, sem hljóðar svo: „Höldum áfengi til Haga.“

Á síðasta ári skilaði ÁTVR þremur milljörðum króna í arð til ríkisins. Þessum fjármunum vill TBE & Co. koma í vasa áfengisauðvaldsins, sem ekki hefur þó hingað til komist í fréttir fyrir að vera vanhaldið. Því til viðbótar skal losa allar hömlur á áfengisauglýsingum svo dansinn í kringum Bakkus geti aukist um allan helming. Flutningsmenn vita raunar upp á sig skömmina því eftir að hafa opnað allar brennivínsflóðgáttir vilja þeir auka fjárveitingar til forvarna.

Þetta minnir mjög á sumar dýrategundir, svo sem ketti, sem reyna, ef þeir geta, að krafsa yfir skítinn úr sér.

Alþingi til skammar

Nú er komið að Óttari Proppé heilbrigðisráðherra að fara að taka af skarið. Rolugangur hans og meðvirkni gagnvart Viðreisnar-Benedikt er að verða nokkuð auðsæ.

Proppé er úti að aka
á íhaldsins helbláa klaka.
Framtíðin björt
orðin er svört.
Flokksmenn til fótanna taka.

Öll er þessi „brennivín í búðir“-þvæla Alþingi til háborinnar skammar og því meir sem dregst að fleygja óberminu á dyr.

Að lokum gömul og raunsönn vísa, sem gæti sem best sómt sér sem leiðarstef Teits Björns & co:

Ef þú vilt að ævi þín
öll í hunda fari
á hverjum degi drekktu vín
dýrum vitlausari.

– Indriði Aðalsteinsson

Höfundur er bóndi á Skjaldfönn við Djúp. Greinin birtist fyrst í Vestfjörðum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Vilhjálmur bálreiður út í ríkisstjórnina

Vilhjálmur bálreiður út í ríkisstjórnina
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 dögum

Thomas Möller skrifar: Stöðugleiki skiptir mestu máli

Thomas Möller skrifar: Stöðugleiki skiptir mestu máli
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Blásið til sóknar fyrir alla – ekki bara Range Rover, Benz og Porsche liðið heldur alla

Svarthöfði skrifar: Blásið til sóknar fyrir alla – ekki bara Range Rover, Benz og Porsche liðið heldur alla
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Nína Richter skrifar: Popúlismi er tæki og við erum fólk

Nína Richter skrifar: Popúlismi er tæki og við erum fólk