fbpx
Fimmtudagur 28.ágúst 2025
Eyjan

Sósíalistaflokkurinn notar slembiúrtak til að móta stefnu flokksins

Ari Brynjólfsson
Fimmtudaginn 29. júní 2017 14:16

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Gunnar Smári Egilsson leiðtogi sósíalista Samsett mynd/DV

Sósíalistaflokkur Íslands mun nota slembival úr félagatali sínu til að móta stefnu flokksins.  Fram kemur í tilkynningu frá bráðabirgðastjórn flokksins að búið sé að merka fyrirkomulag fjögurra fyrstu málefnahópanna. Þeir munu fjalla um heilbrigðismál, húsnæðismál, málefni samfélagssjóða og lýðræðisvæðingu samfélagsins, málefni sem eiga að endurspegla stefnuna sem var grundvöllur stofnunar Sósíalistaflokksins.

Þrjátíu slembivöldum félögum í hverjum hópi verður falið að móta stefnu flokksins í þessum málefnum og leggja tillögur sínar fyrir Sósíalistaþing í haust. Þetta fyrirkomulag er valið í þeirri trú að ef hópur fólks sem endurspeglar almenning hefur aðgengi að bestu upplýsingum muni hann komast að skynsamlegri og góðri niðurstöðu með lýðræðislegu samtali.

Telur flokkurinn að slembival tryggi að fulltrúar séu raunverulega þversnið samfélagsins sem þau koma úr og að sem flest sjónarmið komi fram meðal þeirra. Um leið er það besta vörnin gegn klíkumyndun, stéttaskiptingu og sérhagsmunagæslu í stefnumótun. Málefnahóparnir munu kalla til fólk sem hefur þekkingu eða reynslu af viðkomandi málefnum og hlýða á málflutning þess. Allir félagar í flokknum og annað áhugasamt fólk getur óskað eftir áheyrn hópanna til að koma sinni reynslu, kunnáttu eða skoðun á framfæri. Umræðan mun fara fram undir stjórn faglegra fundarstjóra sem munu tryggja að sjónarmið allra heyrist í umræðunni.

Sósíalistaþingið í haust mun taka niðurstöðu hópanna til afgreiðslu og ákvarða framhaldið, hvort stefna í öðrum málefnahópum verður unnin með sama hætti og hvort reynslan af þessari vinnu sé fyrirmynd um stefnumótun og ákvarðanatöku úti í samfélaginu.

Þótt stefnumótun fram að Sósíalistaþingi í haust einskorðist við þessi fjögur málefni mun Sósíalistaflokkurinn efna til umræðu um mun fleiri viðfangsefni bæði í aðdraganda og kjölfari þingsins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Björn Jón skrifar: Réttindi og skyldur

Björn Jón skrifar: Réttindi og skyldur
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Sigmundur Ernir skrifar: Valdaflokkarnir gáfu landsbyggðinni langt nef

Sigmundur Ernir skrifar: Valdaflokkarnir gáfu landsbyggðinni langt nef