Unnur Brá Konráðsdóttir skrifar:
Það er óhætt að segja að nýliðið löggjafarþing hafi verið óvenjulegt fyrir margar sakir. Þing kom saman 6. desember án þess að fyrir lægi meirihlutasamstarf og ný ríkisstjórn, í fyrsta skipti í nær 40 ár. Þingið þurfti að takast á við það stóra verkefni að vinna að setningu fjárlaga ársins 2017 þvert á flokka. Óhætt er að segja að þingmenn stóðust þetta próf með ágætum og mega vera stoltir af þeim vinnubrögðum sem verða vonandi veganesti nýrra þingmanna til frambúðar.
Stóru tíðindi kosninganna
Niðurstöður Alþingiskosninga, í októberlok 2016, urðu að Sjálfstæðisflokkurinn varð stærsti flokkurinn á Alþingi með tæpan þriðjung atkvæða og 21 þingmann kjörinn. Fleiri flokkar náðu kjöri en um langa hríð, eða 7, og atkvæði dreifðust svo að ekki var unnt að mynda meirihlutastjórn tveggja flokka í fyrsta sinn síðan í kosningunum 1987. Stjórnarmyndun tók langan tíma sem gerði það að verkum að Alþingi kom saman áður en stjórn var mynduð.
Stóru tíðindi kosninganna voru mikil endurnýjun þingmanna og góður hlutur kvenna. Nálægt helmingur þingmanna sem tók sæti á Alþingi að loknum kosningum átti ekki sæti á þingi á síðasta kjörtímabili. Þá tók 31 kona sæti á Alþingi, eða tæp 48%, sem er hærra hlutfall en nokkru sinni fyrr í sögu Alþingis. Þessum áfanga ber að fagna sérstaklega og verður vonandi konum hvatning til frekari þátttöku í stjórnmálum.
Breytt vinnubrögð á Alþingi
Vinna við fjárlagagerð, án þess að skýr meirihluti lægi fyrir á Alþingi, var mikilvægur lærdómur fyrir þingmenn sem sýndu að unnt er að vinna þvert á flokka að lausn mikilvægra mála. Ný ríkisstjórn þriggja flokka, undir forystu Sjálfstæðisflokksins, var mynduð eftir langt stjórnarmyndunarferli og einungis eitt þingsæti skilur meirihluta og minnihluta á þingi. Það krefst annarra vinnubragða í þinginu og meira samráðs um lausn mála, líkt og tíðkast hefur í nágrannalöndum okkar.
Ég hef sem forseti Alþingis lagt mig í líma við að vera forseti alls Alþingis og hlusta vel eftir sjónarmiðum jafnt fulltrúa meirihluta sem minnihluta við stjórn þingsins. Er ég afar þakklát fyrir gott samstarf við formenn allra þingflokka á liðnum þingvetri. Mitt verkefni er fyrst og fremst að tryggja vandaða meðferð mála á þingi og virkt eftirlitshlutverk Alþingis og hef ég hafið rýni á þingsköpum Alþingis með það að markmiði að bætta enn vinnubrögð á þingi. Tryggja þarf að stjórnarfrumvörp berist tímanlega til Alþingis og endurskoða þarf verklag og styrkja þingið í ljósi þeirra nýmæla sem fjármálaáætlun felur í sér.
Kynslóðaskipti og hlutverk kvenna
Mikil endurnýjun þingmanna í síðustu kosningum, og reyndar Alþingiskosningum undanfarin áratug, gerir það að verkum að þingreynsla er minni en oftast áður. Óhætt er að segja að kynslóðaskipti hafi orðið á Alþingi og er meðalaldur þingmanna nú rúm 46 ár. Reynsla er tvímælalaust af hinu góða og töluverð áskorun er fyrir þingið að svo mikil endurnýjun hafi orðið, en hafa ber í huga að með nýju fólki blása ferskir vindar og nýjar hugmyndir til góðra verka. Þá tryggir jafnt hlutfall kynja betur að ólík sjónarmið skili sér við lausn mála. Við Íslendingar megum vera stolt af þeim árangri sem við höfum náð í jafnréttismálum, þótt enn sé verk að vinna. Staða kvenna er því miður ekki góð víða um heim og við höfum skyldu til að deila reynslu okkar og ráðum með öðrum þjóðum. Með það að markmiði hef ég ákveðið að bjóða alþjóðlegum samtökum kvenþingmanna að halda ársfund sinn á Íslandi haustið 2017, í samstarfi við Alþingi.
Mikilvægi lýðræðislegrar þátttöku.
Að lokum vil ég leggja áherslu á að mikilvægt er að við nýtum þau tækifæri sem gefast til að hafa áhrif á samfélag okkar. Það getur verið með virkri þátttöku í stjórnmálum eða félagsmálum, eða einfaldlega með því að nýta kosningaréttinn.