fbpx
Fimmtudagur 28.ágúst 2025
Eyjan

Kvótakerfið veldur hörðum stéttaátökum

Ritstjórn Eyjunnar
Mánudaginn 26. júní 2017 18:29

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kristinn H. Gunnarsson skrifar:

Sjómannadagurinn var haldinn hátíðlegur nýverið. Vel viðraði og tókust hefðbundin hátíðahöld með ágætum. Blaðið Vestfirðir sendir sjómönnum og fjölskyldum þeirra góðar kveðjur og þakkir fyrir framlag þeirra til góðra lífskjara landsmanna.

Kvótakerfið er eldurinn sem logar undir sjávarútveginum og  hefur valdið hörðum deilum og átökum í þjóðfélaginu síðustu 30 ár. Forystumenn útgerðarinnar gera sér grein fyrir stöðunni og keppast við að bera lofi á kerfið og vara við öllum hugmyndum um breytingar. Þeir freista þess að sitja sem fastast á pottlokinu meðan eldurinn heldur áfram að kynda undir og með hverju árinu mun styrkurinn aukast á gufunni undir lokinu.

Þessar aðfarir bera feigðina í sér. Gallar kerfisins eru svo alvarlegir að fyrr eða síðar mun fara fyrir því sem pottlokinu, það mun þeytast í loft upp með þeim sem á því sitja. Þá mun enginn vita  hvernig lendingin verður.

Völd og peningar

Deilurnar snúast um peninga. Til þess að komast yfir peninga þarf völd. Kvótakerfið færir útvöldum völd yfir verðmætum réttindum til þess að nýta fiskimiðin í kringum landið. Þau völd nýtast til þess að breyta réttindunum í peninga. Deilan snýst ekki lengur um það hvort réttindin eru sóknardagar eða magnkvóti.  Það kann að vera að út frá brottkasti gilt sjónarmið að afnema magnkvóta. En það bíður betri tíma að ræða slíkt til hlítar þar sem aðalatriðið er hvernig réttindunum er úthlutað. Ótímabundin úthlutun réttindanna með árlegri ákvörðun um magnið er kjarninn í kvótakerfinu. Yfirrráðin yfir réttindunum gefur völd. Þegar við bætist að ríkið lætur réttindin af hendi fyrir brotabrot af markaðsverði gefa völdin af sér gróða af þeirri stærð sem óþekkt er í  íslensku þjóðfélagi. Auðsöfnun tiltölulegra fárra einstaklinga hefur skapað eignastétt sem fær á hverju ári tugi milljarða króna upp í hendurnar fyrirhafnarlaust. Hagstofa Íslands hefur tekið saman gögn um fjárhag í sjávarútvegi. Samkvæmt þeim hefur gróðinn fyrir fjármagn og skatta frá 2002-2015 verið 700 milljarðar króna á verðlagi ársins 2015. Þá er búið að draga frá tekjum öll útgjöld vegna rekstursins, þar með talið afskriftir. Gróðinn hefur því verið 50 milljarðar króna á hverju ári að meðaltali þessi 14 ár. Um þessi verðmæti er deilt. Fáein hundruð manna sitja ein að þessum auði í dag.

Kristinn H. Gunnarsson ritstjóri Vestfjarða og fyrrverandi þingmaður.

En auðsöfnunin er því aðeins möguleg að völdin yfir tekjumöguleikunum séu á hendi fárra útvalinna og að þeir haldi á þeim um aldur og ævi, rétt eins og yfirstéttin gerði fyrir daga iðnbyltingarinnar.  Þeir sem hafa völdin beita þeim ávallt sér til hagsbóta. Valdhafarnir búa um sig í stjórnmálaflokkunum, stéttarfélögunum og  fjölmiðlunum og tala þaðan til almennings. Það er alveg orðið tímabært að rifja upp þjóðfélagsgreiningu heimspekingsins Karls Marx og spá hans um þróun kapitalismans.

Vantraust milli útgerðar og sjómanna

Gleggasta dæmið um það hversu djúpstæð átökin í þjóðfélaginu eru orðin mátti sjá og heyra í málflutningi fulltrúa sjómanna á sjómannadaginn.  Á aðalhátíðahöldunum í Rekjavík sagði ræðumaður sjómanna fullum fetum að ekki ríkti traust milli sjómanna og útgerðarmanna. Er hann þó varaþingmaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Þetta koma skýrt fram í kjaradeilu sjómanna og útgerðarmanna síðastliðinn vetur.  Gífurleg óánægja braust fram meðal sjómanna. Kjarasamningar höfðu verið lausir í 6 ár og sjómenn fengu engu áorkað um helstu kröfur sínar. Útgerðin er orðin svo valdamikil að hún ræður meira og minna öllu í sjávarútvegi. Veiðar og vinnsla er mikið til á sömu hendi. Verðmyndun er ákvörðuð af aðilum sem eru báðum megin við borðið. Meira segja fiskmarkaðarnir eru komnir að verulegu leyti  undir eignarhald þeirra sem halda um veiðiréttindin. Þar sem sjómenn miða kaup sitt við fiskverð þýðir þessi staða útgerðarinnar að hún getur lækkað laun sjómanna með því að lækka fiskverðið og þar með aukið hagnað sinn. Útgerð er orðinn einokunarhringur sem spilar með kaup sjómanna eftir eigin hentugleika. Hagsmunir útgerðar og sjómanna hafa verið slitnir í sundir og þess vegna ríkir ekkert traust lengur. Útgerðin hefur látið kné fylgja kviði og sjómenn eru látnir borga of mikið í olíukostnað og þvingaðir til þess að greiða hlut í kostnaði við  nýsmíði á skipi. Þetta eru hvort tveggja þrælaákvæði knúin fram fyrir tilstilli valdsins í kvótakerfinu. Kjaradeilunni lauk með yppon útgerðarinnar á verkalýðshreyfingunni, sem liggur sundruð eftir.

Vofa gengur laus

Þeir sem lofa mest þjóðfélagsskipulag kvótakerfisins og telja aðeins þurfa að fínstilla smánargreiðslurnar  fyrir kvótann eru fullkomlega blindir á stéttarandstæðurnar sem búið er að vekja upp. Þær munu ganga aftur ljósum logum. Kvótaauðskipulagið mun enda á öskuhaugum sögunnar. Til þess að afstýra fyrirsjáanlegum þjóðfélagsátökum verður að innkalla kvótann og ráðstafa honum að nýju á grundvelli samkeppni, jafnræðis, markaðsverðs og tímabundinna afnota.

Greinin er leiðari Vestfjarða.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Hraðinn og nálægðin við viðskiptavininn er það sem heillar við smásöluna

Hraðinn og nálægðin við viðskiptavininn er það sem heillar við smásöluna
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Prís: Okkar loforð er að bæta hag heimilanna með því að lækka matvöruverð

Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Prís: Okkar loforð er að bæta hag heimilanna með því að lækka matvöruverð
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Sigmundur Ernir skrifar: Enn þá bíður fortíðin fjölda ungmenna

Sigmundur Ernir skrifar: Enn þá bíður fortíðin fjölda ungmenna
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Prís: Ætlum að opna fleiri verslanir

Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Prís: Ætlum að opna fleiri verslanir
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Eftirlit í þágu milliliða – hver fylgist með eftirlitsmönnunum?

Svarthöfði skrifar: Eftirlit í þágu milliliða – hver fylgist með eftirlitsmönnunum?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Verður Sjálfstæðisflokkurinn utan valda í nær öllum helstu sveitarfélögunum?

Orðið á götunni: Verður Sjálfstæðisflokkurinn utan valda í nær öllum helstu sveitarfélögunum?
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Björn Jón skrifar: Réttindi og skyldur

Björn Jón skrifar: Réttindi og skyldur
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Nína Richter skrifar: Miðaldra konur í hörtóga á Balí

Nína Richter skrifar: Miðaldra konur í hörtóga á Balí
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Stjórnarskráin og ESB

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Stjórnarskráin og ESB