Dóra Sif Tynes varaþingmaður Viðreisnar segir ekki auðvelt að sitja undir ásökunum um valdagræði, pólitíska spillingu og óheiðarleika þegar hún hafi eingöngu tekið afstöðu á grundvelli málefnalegra sjónarmiða þegar kom að því að samþykkja tillögu Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra um skipun 15 dómara við Landsrétt. Dóra Sif birtir grein sína á Kjarnanum og svarar Þórði Snæ Júlíussyni ritstjóra Kjarnans sem skrifaði í leiðara að rökstuðningur Viðreisnar og Bjartrar framtíðar fyrir því að styðja tillögu ráðherra sé brjóstumkennanlegur:
Björt Ólafsdóttir frá Bjartri framtíð fór til að mynda í ræðustól og furðaði sig á því fokreið að minnihlutinn gæti ekki stutt breytingu sem fæli í sér bætt kynjahlutföll. Hanna Katrín Friðriksson og Jóna Sólveig Elínardóttir frá Viðreisn buðu upp á svipaðan málflutning. Sigríður Á. Andersen minnist hins vegar ekki einu orði á kynjahlutföll í sínum rökstuðningi. Þau höfðu ekkert með gerræðislega ákvörðun hennar að gera. Það myndu þingmennirnir og ráðherrann vita ef þeir hefðu lesið þriggja blaðsíðna bréf dómsmálaráðherra til Alþingis með rökstuðningi hennar. Það tekur um mínútu að lesa það,
sagði Þórður Snær. Þess í stað hafi einfaldlega verið um að ræða pólitísk hrossakaup þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hafi sagt samstarfsflokkunum að hleypa málinu í gegn. Sagði Þórður Snær að Björt framtíð og Viðreisn hafi misst allan trúverðugleika vegna málsins og opinberað sig sem valdaflokka:
Ástandið í ríkisstjórnarsamstarfinu minnir á ofbeldisfullt hjónaband þar sem bældur maki – sem níðst hefur verið á – telur sig ekki hafa efni á skilnaði. Of mikið sé undir. Þess í stað sættir hann sig við höggin og útskýrir svo ástæðuna fyrir marblettunum fyrir þeim sem spyrja með lélegum fyrirslætti. Hann gekk á hurð. Rann í sturtunni. Rökstuðningur ofbeldismannsins var svo sannfærandi.
Jafnt kynjahlutfall réði alltaf för
Dóra Sif segir að afstaða Viðreisnar hafi legið fyrir frá því að lög sem fælu dómnefnd umsækjanda um dómaraembætti að meta hæfi umsækjenda voru til umræðu á Alþingi í febrúar síðastliðnum, þar lagði minnihlutinn fram breytingartillögu um að áréttað skyldi í lögunum að dómnefnd bæri að fara að jafnréttislögum:
Allir þingmenn minnihlutans sem tóku til máls í umræðunni lýstu því yfir, að ef dómnefndin myndi ekki skila af sér lista sem uppfyllti sjónarmið um jafnræði kynja, yrði ráðherra að grípa inn í. Þingmenn Viðreisnar voru því sammála,
segir Dóra. Vandasamt sé að eiga í rökræðu um forsendur hæfismats og hvern skipa skuli í embætti á hverjum tíma. Saknar hún þess að menn takist á í rökræðu um hvort og hvernig stilla eigi upp vægi einstakra matsþátta við mat á umsækjendum um dómaraembætti, frekar en detta í umræðu um hvort þessi sé betri en hinn:
Og hver á aðkoma Alþingis að vera? Er Alþingi aðeins eftirlitsaðili eða á þingið að fara að hlutast til um einstaka nöfn á lista eins og ráða mátti af ræðum sumra þingmanna? Er í lagi að úthrópa nafngreinda einstaklinga fyrir pólitíska spillingu úr ræðustól Alþingis og fara rangt með reynslu þeirra og starfsferil? Þá er ljóst að dýpri umræða þarf að fara fram um hvort kynjasjónamið eigi alltaf við eða hvort frá þeim megi víkja ef tilteknir aðilar eiga í hlut.
Segir Dóra að í hennar tilfelli hafi jöfn kynjahlutfall dómara við Landsrétt ráðið för:
Það er sannarlega ekki auðvelt að sitja undir ásökunum um valdagræði, pólitíska spillingu og óheiðarleika þegar kona hefur sannfæringu fyrir því að taka afstöðu til máls eingöngu á grundvelli málefnalegra sjónarmiða. Í mínu tilviki réðu för í þessu máli mikilvægi þess að Landsréttur yrði frá upphafi skipaður með jöfn kynjahlutföll að leiðarljósi og ég gat að sama skapi fallist á það sem málefnaleg sjónarmið að þegar skipa ætti nýjan dómstól í fyrsta sinn ætti að líta frekar til dómarareynslu. En þetta er kannski bara náttúrulegur fylgifiskur þess að taka þátt í stjórnmálum og opinberri umræðu á Íslandi. Því þegar allt kemur til alls þá er bara svo miklu auðveldara að fara í manninn heldur en boltann.