Gunnar Waage segir að lokun YouTube-reiknings Sandkassans sé aðeins tímabundið bakslag því hann muni senda þætti af Útvarpi Sögu til karabíska hafsins þar sem þeir verði geymdir á vefþjóni sem Útvarp Saga geti ekki snert. Eyjan greindi frá því í gær að bandaríska myndbandaveitan YouTube hefði lokað reikningi Sandkassans vegna kvartana frá Útvarpi Sögu. Sagði Útvarp Saga að um væri að ræða brot á höfundarrétti þar sem vefurinn Sandkassinn, sem Gunnar ritstýrði, hefði sett þætti stöðvarinnar á YouTube í óleyfi.
Sjá frétt: Lokað á Sandkassann vegna kvartana
Alls var um að ræða 26 útvarpsþætti af Útvarpi Sögu sem og þætti af útvarpsstöðvum 365 miðla sem settir voru inn á YouTube og þaðan inn á vefinn Sandkassinn.com. Gunnar og Útvarp Saga hafa lengi eldað grátt silfur. Segir Gunnar að á stöðinni þrífist hatursáróður og hefur hann meðal annars kallað Pétur Gunnlaugsson útvarpsmann á stöðinni „kúk“. Forsvarsmenn stöðvarinnar segja á móti að Gunnar fari fram með ærumeiðingar, rógburð og níð.
Gunnar segir í samtali við Eyjuna að Útvarp Saga hafi tekist að plata YouTube:
Að sjálfsögðu var ekki um stuld á efni að ræða enda var í öllum tilfellum til tekið hvaðan upptökurnar komu,
segir Gunnar. Segir hann jafnframt að upptökurnar fari aftur á vefinn, þá í gengum vefþjón sem Útvarp Saga geti ekki nálgast:
Innan skamms verður efnið sem tekið var niður aðgengilegt á ‘offshore’ vefþjóni í Karíbahafinu.
Vefur Sandkassans lá niðri í gær og veltu margir fyrir hvort honum hefði verið lokað, Arnþrúður Karlsdóttir útvarpsstjóri Útvarp Sögu fagnaði tíðindunum og sagði á Fésbók að verið væri að „hreinsa út hrelliklámið“. Gunnar segir að þetta hafi verið vandamál með hýsingu sem nú sé búið að kippa í lag:
„Svo það sé á hreinu þá mun Arnþrúður Karlsdóttir ekki þagga niður í okkur , hún er komin út fyrir sinn þyngdarflokk. Útvarp Saga á ekkert í okkur á Sandkassanum.“