fbpx
Fimmtudagur 21.ágúst 2025
Eyjan

„Fólk er með stærra herbergi fyrir bílinn sinn heldur en börnin sín“

Ari Brynjólfsson
Miðvikudaginn 26. júlí 2017 18:42

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Gísli Marteinn Baldursson fjölmiðlamaður, lýsir hann sér einnig sem óopinberum borgarfulltrúa. Samsett mynd/DV

„Austurvöllurinn var umferðareyja, það var keyrt allsstaðar í kringum hann, allar göturnar, það er búið að loka þeim núna. Við erum búin að vera að taka göturnar okkar til baka frá bílunum og yfir til okkar, hvort sem það er til að gera þær að útivistarsvæðum, grænum svæðum eða göngugötum eða hvaðeina og sú þróun mun bara halda áfram. Hún er í gangi út um allan heim og hún er í gangi í Reykjavík. Hér er hún kölluð aðförin að einkabílnum, en sorrí, þeir sem segja það munu tapa því stríði.“

Þetta sagði Gísli Marteinn Baldursson fjölmiðlamaður og fyrrverandi borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. Ræddi hann þar um hugmyndir sínar um að hætta við að byggja fleiri úthverfi og þétta þess í stað byggð til að gera fólki kleift að sleppa því að eiga bíl og komast samt auðveldlega á milli staða í borginni. Hugmyndir Gísla Marteins hafa vægast sagt fallið í grýttan jarðveg meðal margra en Gísli segir þetta einfaldlega vera þróunina. Efast hann mjög um að allir vilji eiga bíl, ástæðuna að flestir eigi bíl megi rekja til skipulags Reykjavíkurborgar árið 1962 þar sem gert var ráð fyrir að allir myndu eiga bíl:

Kannski var valið ekki alveg frjálst þegar fólk valdi einkabílinn því þegar skipulagið er þannig að þú hefur enga aðra góða valkosti þá ert það ekki svo mikið þú sem ert að velja þetta,

Umferðin á Kringlumýrarbrautinni á vetrarmorgni. Mynd/Getty

segir Gísli Marteinn og nefnir sem dæmi sína fjölskyldu sem fluttist upp í Breiðholt en faðir hans vann á Hverfisgötu:

„Það voru ömurlega strætisvagnasamgöngur á milli Hverfisgötu og Breiðholts í byrjun og hafa reyndar lengst af verið, ekki gat hann labbað og ekki voru hjólastígar í borginni á þeim tíma. Hvaða val var þá raunverulega á ferðinni? Þetta voru einu íbúðirnar sem ungt fólk get keypt í byrjun áttunda áratugsins. Sama með Úlfarsfell núna, við skipuleggjum nýtt hverfi, þangað gekk lengst af einn strætó sem kom á hálftíma fresti. Hvaða val hefur fólk þar? Ég er að bend á það að skipulagið ræður svo miklu um það hvernig við ferðumst.“

Ber hann saman samgöngumáta fólks sem býr á Kjalarnesi og í Vesturbæ Reykjavíkur. Íbúar Kjalarness ferðast iðulega með bíl á meðan þeir sem búa á Melunum gera það ekki:

Kjalarnes er hluti af Reykjavík, þar ferðast mjög fáir öðruvísi en akandi til og frá vinnu, þar er ekkert öðruvísi fólk en býr á Melunum þar sem innan við helmingurinn fer akandi til vinnu. 49% þar fer keyrandi í vinnuna, þannig að meirihlutinn fer einhvernveginn öðruvísi í vinnuna. Er þetta eitthvað betra fólk eða umhverfisvænna fólk en þeir sem búa í Úlfarsfelli, auðvitað ekki. Það bara býr á ólíkum stöðum, skipulagið er ólíkt.

Vegfarendur á Times Square í New York-borg. Mynd/Getty

Gísli Marteinn segir það hafa áhrif á fólk hvernig borgin sé byggð upp. Segir hann að þróunin að loka fyrir bíla sé alþjóðleg, til dæmis hafi fáum getað dottið í hug að Broadway í Manhattan yrði lokuð fyrir bíla en nú séu engir bílar á Times Square, spyr hann jafnframt hve margir séu í sólbaði í dag við lækinn í miðbæ Árósa þar sem áður var hraðbraut. Segir Gísli að auknar almenningssamgöngur, hjólastígar, göngustígar og bílagötum sem sé breytt í göngugötur sé framtíðin:

Lækurinn í Árósum. Nefnir Gísli Marteinn það sem dæmi um hraðbraut sem hafi verið breytt. Mynd/Lonely Planet.

„Þetta er það sem allir vilja í rauninni. Það er ótrúlega skrítið að taka þessa umræðu um bílana því þetta er svo tilfinningaríkt. Skeriði niður í leikskólunum, ekkert mál. Allir eru bara slakir yfir þeirri umræðu, fólk nennir ekki einu sinni að hringja inn í Útvarp Sögu til að kvarta undan því. En bílastæði? Allt vitlaust! Þetta er þannig að fólk er með stærra herbergi fyrir bílinn sinn heldur en fyrir börnin sín, ef menn eru með bílskúr.“

Varðandi húsnæðisvandann í borginni þá segir Gísli Marteinn það ekki vera lausn að byggja sérbýli í úthverfi Reykjavíkur, nóg sé til af því, það sem vanti og ungt fólk sé að biðja um séu hæðir og litlar íbúðir miðsvæðis:

Það er það sem unga fólkið er að biðja um, ekki sérbýli í úthverfi. Við eigum að þétta byggðina, við eigum að setja fleiri sílkar íbúðir. Ekki bara unga fólkið og fermetraverðið segir okkur að eftirspurnin sé eftir, heldur líka greiningadeildir bankanna og allir sem fjalla um húsnæðismarkaðinn segja að það sé það sem að vantar. Það eru minni íbúðir, minni hæðir, miðsvæðis. Það á ekki að leysa þetta með því að rusla upp einhverjum húsum alveg austast í borginni og gera þeim ekki kleift að ferðast um borgina öðruvísi en á bíl, það er engin lausn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Thomas Möller skrifar: Meiri bjartsýni – minni svartsýni

Thomas Möller skrifar: Meiri bjartsýni – minni svartsýni
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Málþæfður minnihluti þarf að átta sig

Málþæfður minnihluti þarf að átta sig
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Sigmundur Ernir skrifar: Svona er pólitíkin að breytast á Íslandi

Sigmundur Ernir skrifar: Svona er pólitíkin að breytast á Íslandi
Eyjan
Fyrir 1 viku

Könnun – Ísland og Evrópusambandið

Könnun – Ísland og Evrópusambandið