Bandaríska myndbandaveitan YouTube hefur lokað reikningi Sandkassans og hafa öll myndböndin verið fjarlægð í kjölfar kvartana Útvarps Sögu um brot á höfundarrétti. Greint var frá þessu á vef Útvarps Sögu í vikunni og hefur Eyjan fengið þetta staðfest frá YouTube. Alls var um að ræða 26 útvarpsþætti af Útvarpi Sögu sem og þætti af útvarpsstöðvum 365 miðla sem settir voru inn á YouTube og þaðan inn á vefinn Sandkassinn.com sem var í umsjá Gunnars Waage.
Á vef Sandkassans mátti finna ýmis brot úr útvarpsþáttum, af Útvarpi Sögu, úr þættinum Harmageddon á X-inu og þættinum Bítið á Bylgjunni. Allar þær klippur eru nú óvirkar þar sem búið er að loka á YouTube-reikning Sandkassans.
Hafa lengi eldað grátt silfur
Útvarp Saga segir að með því að setja klippur úr þáttum stöðvarinnar á YouTube hafi Gunnar brotið höfundarrétt og þar að auki tekið myndir af Fésbókarsíðu stöðvarinnar í óleyfi til að nota í baráttu sinni gegn stöðinni.
Gunnar og Útvarp Saga hafa lengi eldað grátt silfur. Segir Gunnar að á stöðinni þrífist hatursáróður en forsvarsmenn stöðvarinnar segja á móti að Gunnar fari fram með ærumeiðingar, rógburð og níð.