Sigurjón M. Egilsson fjölmiðlamaður segir að málflutningur formanns og varaformanns Viðreisnar kalli á mikil viðbrögð frá Sjálfstæðisflokknum, móðurflokki ríkisstjórnarinnar, segir Sigurjón að það stefni allt í einhverskonar uppgjör innan ríkisstjórnarinnar. Segir Sigurjón í grein á vef sínum Miðjan að málflutningur Viðreisnar falli í grýttan jarðveg hjá helstu talsmönnum Sjálfstæðisflokksins en þrátt fyrir það boði Viðreisn framhald og því leiki ríkistjórnin á reiðiskjálfi. Vísar hann sérstaklega til greinar Jónu Sólveigar Elínardóttur varaformanns Viðreisnar sem sagði í dag að Viðreisn myndi ekki hætta að berjast fyrir tengingu krónunnar við erlendan gjaldmiðil og halda áfram að tala fyrir framtíðarmöguleika Íslands á að taka upp evru og ganga í Evrópusambandið:
„Við munum áfram tala fyrir myntráði – að halda krónunni en binda hana við annan gjaldmiðil – og fyrir framtíðarmöguleikum þess að taka upp evru með ESB-aðild. Viðreisn mun aldrei hætta að tala og berjast fyrir stöðugleika fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu með almannahagsmuni, en ekki sérhagsmuni, að leiðarljósi,“
sagði Jóna Sólveig. Í grein sem Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra og formaður Viðreisnar skrifaði í síðustu viku ítrekaði hann skoðun Viðreisnar um að finna eigi varanlega lausn á gengissveifum krónunnar, til að mynda með því að tengja hana við erlendan gjaldmiðil. Bjarni Benediktsson forsætisráðherra sagði svo í viðtali við RÚV að málflutningur Benedikts, um að hafna beri íslensku krónunni, lýsi hans eigin skoðun og flokks hans, en ekki ríkisstjórnarinnar:
„Auðvitað er ekki hægt að segja í samsteypustjórn að menn séu allir beygðir inn á sömu skoðunina, en það þarf að vera alveg á hreinu að það er ekki stefna stjórnarinnar að skipta hér út gjaldmiðlinum,“
sagði Bjarni. Sigurjón segir að málflutningur Jónu Sólveigar og Benedikt kalli á mikil viðbrögð frá Sjálfstæðisflokknum:
Málflutningur formanns og nú varaformanns Viðreisnar kallar á mikil viðbrögð frá móðurflokki ríkisstjórnarinnar, Sjálfstæðisflokki. Ekkert annað en einhverskonar uppgjör er framundan. Gefur Viðreisn eftir í sókn sinni til framhaldslífs og umber Sjálfstæðisflokkurinn framgöngu Viðreisnar? Það er ólíklegt,
segir Sigurjón og bætir við:
Þá er spurt hvort Bjarni Benediktsson sé nógu sterkur til að halda ríkisstjórninni saman. Hann hefur ekkert sýnt sem bendir til þess.