Viðreisn mun halda áfram tala fyrir myntráði, að halda krónunni en binda hana við annan gjaldmiðil og fyrir framtíðarmöguleikum þess að taka upp evru með ESB-aðild. Þetta segir Jóna Sólveig Elínardóttir varaformaður Viðreisnar í pistli í Fréttablaðinu í dag. Segir hún að krónuhagkerfið geri það að verkum að það sé ekki sjálfsagt fyrir Íslendinga að safna sér fyrir útborgun á íbúðarhúsnæði, skipuleggja fjármál heimilisins til langs tíma og búa við atvinnuöryggi þar sem vinnustaðir hafi ekki stöðugt rekstrarumhverfi:
Þetta þýðir ekki að lífskjör séu slæm á Íslandi. Þetta þýðir að enn er verk að vinna. Og til þess erum við stjórnmálamenn kjörnir: til að gera betur. En þá þarf líka að horfast í augu við rót vandans: Krónuvandann. Þeir, sem neita að viðurkenna þá sífelldu óvissu sem krónan veldur íslenskum heimilum og fyrirtækjum, þurfa að hugsa sinn gang. Það felst enginn stöðugleiki í stöðugri óvissu,
segir Jóna Sólveig. Segir hún að það þýði ekki lengur að bjóða Íslendingum upp á að vita ekki hvað húsið þeirra kosti á endanum þar sem fólk þurfi að borga eignina sína margfalt á meðan íbúar í nágrannalöndunum borga sitt húsnæði 1,5 til 2 sinnum. Hér muni milljónum króna sem fólk geti notað í þarfari hluti en okurvaxtagreiðslur:
Þetta er ástæðan fyrir því að við í Viðreisn höfum talað og munum halda áfram að tala hátt og skýrt fyrir raunhæfum lausnum á krónuvandanum. Við munum áfram tala fyrir myntráði – að halda krónunni en binda hana við annan gjaldmiðil – og fyrir framtíðarmöguleikum þess að taka upp evru með ESB-aðild. Viðreisn mun aldrei hætta að tala og berjast fyrir stöðugleika fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu með almannahagsmuni, en ekki sérhagsmuni, að leiðarljósi.