fbpx
Föstudagur 22.ágúst 2025
Eyjan

Risastórt fjölþjóðlegt borverkefni í Surtsey

Ritstjórn Eyjunnar
Sunnudaginn 23. júlí 2017 10:42

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Dr. Magnús Tumi Guðmundsson prófessor.

Nú í ágúst hefst stærsta rannsókn í Surtsey frá upphafi en þá mun fjölþjóðlegur hópur vísindafólks vinna að mjög yfirgripsmiklu verkefni undir stjórn Magnúsar Tuma Guðmundssonar, prófessors í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands og  Marie Jackson, dósents við Háskólann í Utah í Bandaríkjunum.  Ætlunin er að bora tvær holur í eyjunni og nýta gögnin sem fást til margvíslegra og flókinna rannsókna. Verkefnið kallast SUSTAIN og er það styrkt af fjölmörgum alþjóðlegum sjóðum, m.a. frá Þýskalandi, Noregi, Bandaríkjunum og Íslandi.

„Tilgangur SUSTAIN-verkefnisins er að varpa ljósi á myndun og þróun eldfjallaeyja með því að samþætta eldfjallafræði, jarðeðlisfræði, jarðefnafræði, mannvirkjajarðfræði  og örverufræði,“ segir Magnús Tumi Guðmundsson i frétt frá Háskóla Íslands.

„Surtseyjargosið 1963 til 1967 er með frægari atburðum í jarðfræði heimsins á seinni hluta 20. aldar. Gosið sýndi hvernig land byggist upp í eldgosi í sjó og varpaði jafnframt ljósi á eðli sprengivirkni gosa þar sem vatn og kvika mætast.“

Magnús Tumi segir að allt frá því gosinu lauk hafi Surtsey gegnt sérstöku hlutverki í vísindunum, því hægt hafi verið að fylgjast með myndun og þróun eyjunnar og lífríkis hennar allt frá upphafi.  „Fuglar, skordýr, selir og gróður hafa numið land auk þess sem í ljós hefur komið að sérstæðar lífverur hafa tekið sér bólfestu í berginu sem myndar eyjuna.  Jafnframt hefur jarðhiti átt þátt í að breyta lausri gjóskunni sem upp kom í gosinu í þétt móberg sem stenst vel ágang sjávarins.  Í Surtsey gefast því fágæt tækifæri til rannsókna á eldvirkni, landmótun og lífríki enda eru árlega farnir leiðangrar til eyjunnar á vegum Surtseyjarfélagsins.“

Að sögn Magnúsar Tuma er meginverkefni SUSTAIN-hópsins að sinna kjarnaborun í Surtsey.  „Áformað er að taka tvo borkjarna, 200 metra langan lóðréttan kjarna auk kjarna úr 300 metra langri skáholu. Rannsaka á innri byggingu og þróun jarðhita í eyjunni sem dæmi um skammlíft jarðhitakerfi í rekbelti úthafsskorpu. Tilvist og fjölbreytileiki örvera við mismunandi hitastig  í innviðum eyjarinnar verða enn fremur könnuð. Sýni verða rannsökuð til að fá innsýn í landnám örvera og hlutverk þeirra í Surtsey. Að lokinni borun yrði lóðrétta holan notuð um áratugi sem neðanjarðar rannsóknarstöð til vöktunar, sýnatöku og tilrauna, sem munu lýsa langtímaþróun í samspili örvera, jarðsjávar og bergs.“

Magnús Tumi segir að verkefnið sé ekki einfalt í framkvæmd þar sem flytja verði allan búnað með skipi og þyrlu út í eyjuna en Landhelgisgæslan mun koma að verkefninu með því að flytja búnaðinn.    „Þetta er ein stærsta og flóknasta framkvæmd af þessum toga sem unnin hefur verið hér á landi.  Surtsey er verndarsvæði á heimsminjaskrá UNESCO og mikla aðgæslu þarf til að hvergi verði spjöll á óraskaðri náttúru eyjunnar.  Að jafnaði verður tíu til tólf manna hópur úti í Surtsey meðan á verkefninu stendur en Umhverfisstofnun hefur eftirlit með því að ströngum reglum um umgengni sé fylgt.  Borkjarnarnir verða fluttir úr Surtsey með þyrlu til Heimaeyjar þar sem sett verður upp tilraunastofa til að rannsaka kjarnana.  Samtals munu um 50 manns taka þátt þótt ekki fari allir til Surtseyjar.“

Magnús Tumi segir að borunin með tilheyrandi flutningum muni kosta um 140 milljónir króna en sá kostnaður verði greiddur með styrkjum frá International Continental Scientific Drilling Program (ICDP), úr vísindasjóðum í Þýskalandi og Noregi auk styrkja frá Bandaríkjunum, en stærsta einstaka fjárframlagið að frátöldum styrk ICDP, er öndvegisstyrkur úr Rannsóknasjóði Vísinda- og tækniráðs.  Landsvirkjun og Orkuveita Reykjavíkur styðja einnig verkefnið að sögn Magnúsar Tuma og fleiri aðilar sem hag hafi af bættri bortækni og rannsóknaraðferðum í jarðhita.  „Vestmannaeyjarbær leggur til rannsóknaraðstöðu og  án þyrlna og skipa Landhelgisgæslunnar væri verkefnið ekki mögulegt,“ segir Magnús Tumi.

„Vísindamennirnir sem koma að rannsókninni eru frá Íslandi, Bandaríkjunum, Þýskalandi, Noregi, Svíþjóð, Bretlandi, Ítalíu, Nýja Sjálandi og Ástralíu.  Leiðandi rannsakendur í verkefninu af Íslands hálfu eru auk Magnúsar Tuma, Andri Stefánsson prófessor í jarðefnafræði við Háskóla Íslands, Viggó Þór Marteinsson örverufræðingur frá Matís, Tobias B. Weisenberger  jarðefnafræðingur frá Ísor og Kristján Jónasson jarðfræðingur  frá Náttúrufræðistofnun Íslands.  Fleiri sérfræðingar og tæknimenn frá þessum stofnunum taka þátt en einnig munu þaulreyndir borjarðfræðingar frá Verkís og Jarðtæknistofunni koma að verkefninu auk hóps framhaldsnema og nýdoktora.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 6 dögum

Orðið á götunni: Gamalkunnur söngur bankanna ómar – þarf kannski bara að breyta leikreglunum?

Orðið á götunni: Gamalkunnur söngur bankanna ómar – þarf kannski bara að breyta leikreglunum?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Segir að ESB-aðild sé engin ógn við sjávarútveginn

Segir að ESB-aðild sé engin ógn við sjávarútveginn
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Björn Jón skrifar: Vestrænt sjálfshatur

Björn Jón skrifar: Vestrænt sjálfshatur
Eyjan
Fyrir 1 viku

Jón hlakkar til að fá tækifæri til að hitta Long – „Hann þykir samt almennt hress“

Jón hlakkar til að fá tækifæri til að hitta Long – „Hann þykir samt almennt hress“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Tvær konur berjast um fjöregg Framsóknar – styttist í flokksþing

Orðið á götunni: Tvær konur berjast um fjöregg Framsóknar – styttist í flokksþing
Eyjan
Fyrir 1 viku

ESB-aðild: Rangfærslur og blekkingar fyrrum þingmanns – við hvað eru menn hræddir?

ESB-aðild: Rangfærslur og blekkingar fyrrum þingmanns – við hvað eru menn hræddir?