Á fundi Varðar, fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, í Valhöll verður kosið um hvort flokkurinn haldi prófkjör eða stilli upp lista og kjósi aðeins oddvita sem muni leiða listann í kosningunum í Reykjavík næsta vor. Tillaga Varðar er að halda leiðtogakjör en það er umdeilt innan flokksins. Í síðustu viku sagði Arndís Kristjánsdóttir formaður Hvatar, félags sjálfstæðiskvenna í Reykjavík, að tillagan muni færa Sjálfstæðisflokkinn áratugi aftur í tímann, í átt frá fólkinu og í átt að klíkustjórnmálum.
Sjá einnig: Formaður Hvatar: Tillagan færir flokkinn áratugi aftur í tímann
Í viðtali á Útvarpi Sögu í gær sagði Árni Árnason stjórnarmaður Varðar að prófkjör í Sjálfstæðisflokknum hafi til þessa skilað einsleitum listum, þar að auki hafi þáttakan dvínað mikið á milli ára. 11 þúsund manns hafi kosið í prófkjöri flokksins árið 2005, en 2013 hafi aðeins rúmlega 5 þúsund manns tekið þátt. Með því að stilla upp lista sé hægt að tryggja jafnvægi kynja meðal frambjóðenda flokksins, aldurs og hvar þeir búi í Reykjavík. Hafa formenn allra sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík lýst yfir stuðningi við tillögu Varðar.
Kosningin fer fram kl. 17:15 í Valhöll.