Arndís Kristjánsdóttir formaður Hvatar, félags sjálfstæðiskvenna í Reykjavík segir að ef tillaga um að sleppa prófkjöri í Reykjavík og halda þess í stað leiðtogakjör nái fram að ganga muni það færa Sjálfstæðisflokkinn áratugi aftur í tímann, í átt frá fólkinu og í átt að klíkustjórnmálum. Segir Arndís í pistli á Vísi í dag að á Vesturlöndum verði krafan um aukna beina aðkomu almennings að stjórnmálum sífellt háværari og að þeir flokkar sem verði ekki við þeirri kröfu séu í mikilli hættu:
Við þessar aðstæður má það furðulegt heita að fámennur hópsins í Valhöll ætlar nú að þrengja aðkomu almennra flokksmanna að vali á framboðslista Sjálfstæðisflokksins. Verði tillögur umrædds hóps samþykktar fá flokksmenn einungis að velja hver það verður sem leiðir lista flokksins, í önnur sæti ætlar fámennur hópur að velja vini sína á fundi lokuðu herbergi,
segir Arndís og bætir við að tillagan færi Sjálfstæðisflokkinn áratugi aftur í tímann:
„Þessi tillaga færir Sjálfstæðisflokkinn áratugi aftur í tímann, frá fólkinu í átt að klíku og fámennisstjórnmálum. Í stað þess að efla og treysta fólkinu í Sjálfstæðisflokknum til að velja frambjóðendur flokksins á að taka upp vinnubrögð löngu liðins tíma, vinnubrögð sem endurspegluðu allt annað þjóðfélag en það sem við búum við í dag.“
Sirrý Hallgrímsdóttir fyrrverandi formaður Hvatar tekur undir með Arndísi, segir Sirrý á Fésbók að leiðtogaprófkjör fæli konur frekar frá því að taka þátt:
Leyfum fólkinu í flokknum að velja sér sinn lista. Það er staðreynd að leiðtogaprófkjör fælir frekar konur frá því að taka þátt. Það er einkennilegt að sjá fulltrúa Varðar tala fyrir fléttulistum þegar Sjálfstæðisfélögin hafa alla tíð talað og kosið gegn þeirri stefnu.