Moon Jae-in forseti Suður-Kóreu segir að það verði ekkert stríð á Kóreuskaganum, stjórnvöld í Seúl séu með neitunarvald ef Bandaríkin hyggjast beita hervaldi gegn Norður-Kóreu. Moon lét þessi orð falla á blaðamannafundi í tilefni af 100 daga setu hans á forsetastóli, bað hann suður-kóresku þjóðina að trúa því staðfastlega að það verði ekkert stríð milli Norður- og Suður-Kóreu:
Ég mun koma í veg fyrir stríð hvað sem það kostar,
sagði Moon. Spennan milli Norður-Kóreu og Bandaríkjanna hefur verið mikil síðustu vikur vegna eldflauga- og kjarnorkuvopnatilrauna Norður-Kóreumanna. Hafa Norður-Kóreumenn verið beittir viðskiptaþvingunum, brugðust þeir ókvæða við og hafa Norður Kóreumenn sagt að þeir séu með áætlun um að gera eldflaugaárás á herstöð Bandaríkjanna í Gúam. Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði að „eldi og óhemju“ myndi rigna yfir Pyongyang ef þeir myndu ráðast á sig eða bandamenn sína. Kim Jong-Un einræðisherra Norður-Kóreu hefur svo dregið í land með eldflaugaárásina og sagði norður-kóreska ríkissjónvarpið að hann væri nú að „fylgjast grannt með“ Bandaríkjamönnum.
Moon sagði að Norður-Kóreumenn yrðu að láta af hótunum sínum og ganga að samningaborðinu, ef þeir gerðu það ekki stæðu þeir frammi fyrir frekari viðskiptaþvingunum.