Arsenal tók á móti Chelsea í seinni leik liðanna í undanúrslitum enska Deildarbikarsins í kvöld en leiknum lauk með 2-1 sigri heimamanna.
Eden Hazard kom Chelsea yfir strax á 7. mínútu en sjálfsmark frá Antonio Rudiger og mark frá Granit Xhaka í síðari hálfleik sá um að tryggja Arsenal 2-1 sigur í leiknum.
Antonio Conte, stjóri Chelsea var að vonum svekktur með úrslit kvöldsins.
„Þetta eru fyrst og fremst vonbrigði. Við reyndum allt sem við gátum til að vinna leikinn en fengum tvö ódýr mörk á okkur og vorum óheppnir,“ sagði Conte.
„Þetta eru vonbrigði fyrir mig, leikmennina og stuðnignsmennina. Við byrjuðum mjög vel og stjórnuðum leiknum. Það var slæmt að missa Willian af velli.“
„Við reyndum að bregðast við og ég setti Ross Barkley inná og hann er nýr hjá félaginu og ekki kominn inní þá hluti sem við erum að gera,“ sagði hann að lokum.