Arsenal tók á móti Chelsea í seinni leik liðanna í undanúrslitum enska Deildarbikarsins í kvöld en leiknum lauk með 2-1 sigri heimamanna.
Eden Hazard kom Chelsea yfir strax á 7. mínútu en sjálfsmark frá Antonio Rudiger og mark frá Granit Xhaka í síðari hálfleik sá um að tryggja Arsenal 2-1 sigur í leiknum.
Arsene Wenger, stjóri Arsenal hlakkar til að mæta aftur á Wembley með sína menn.
„Við sýndum þeim of mikla virðingu í fyrri hálfleik og vorum hræddir við að sækja á þá og þeir nýttu sér það,“ sagði Wenger.
„Við löguðum ákveðna hluti í síðari hálfleik og eftir það stjórnuðum við leikmum. Það var slæmt að missa Sanchez en núna er enginn að hugsa um það lengur. Sanchez málið truflaði aðra leikmenn í liðinu en núna eru allir einbeittir.“
„Það er alltaf gaman að spila á Wembley og við hlökkum til,“ sagði hann að lokum.