Mauricio Pochettino, stjóri Tottenham er afar ánægður með miðjumann liðsins, Mousa Dembele.
Dembele hefur stimplað sig inn sem einn af bestu miðjumönnum deildarinnar í undanförnum leikjum og átt hvern stórleikinn á fætur öðrum.
Dembele er frábær að halda bolta og hefur Pochettino nú líkt honum við Ronaldinho, fyrrum besta knattspyrnumann heims.
„Ég er sá eini sem get talað um hann því ég þekki hann svo vel. Sumir nota mín orð og tala um hann sem snilling. Það er orð sem ég nota ekki oft en ég nota það um ákveðna leikmenn,“ sagði stjórinn.
„Ég set hann í sama flokk og Ronaldinho, Maradona og Okocha. Ég var heppinn að fá að spila með þeim,“ sagði að lokum Pochetttino.