Bandaríski söngvarinn, píanóleikarinn og rokkfrumkvöðullinn Fats Domino er látinn, 89 ára að aldri. Domino var fæddur og alinn upp í New Orleans og hafði tónlistarhefð borgarinnar mikil áhrif á stíl hans. Domino var einn allra fyrsti R’n’B tónlistarmaðurinn til að ná til hvítra áheyrenda og varð einn vinsælasti flytjandinn í fyrstu kynslóð rokktónlistarmanna ásamt Elvis Presley, Chuck Berry og Jerry Lee Lewis. Hann sendi frá sér hvern slagarann á fætur öðrum og enduðu 11 lög hans á bandaríska topp 10-listanum á seinni hluta sjötta áratugarins, meðal annars lögin Blueberry Hill og Ain’t That a Shame.
Gríðarstór varanleg innsetning eftir Ólaf Elíasson er meðal verka sem prýða nýjar höfuðstöðvar fjármálafyrirtækisins Bloomberg í Evrópu, en byggingin er staðsett í fjármálahverfinu City í London. Höfuðstöðvarnar eru sagðar vera einhver sjálfbærasta skrifstofuhúsaþyrping í heiminum í dag og innihalda þær þar að auki mikinn fjölda nýrra listaverka eftir heimsfræga nútímalistamenn. Verk Ólafs, sem hann nefnir No future is possible without a past og verður hægt að horfa á bæði ofan frá og neðan, hverfist um álfilmu sem minnir á gárað yfirborð vatns.
Myndlistarmaðurinn Ragnar Kjartansson kemur fyrir í nýju tónlistarmyndbandi frá bandarísku rokksveitinni The National. Í myndbandinu, sem er við lagið I’ll Still Destroy You af plötunni Sleep Well Beast, birtist Ragnar í hlutverki sjóara sem fækkar fötum og dansar við súlu á barnum Dóp og spilling. Myndbandið var tekið upp á Haven-festival, sem fór fram í Kaupmannahöfn í sumar. Ragnar og meðlimir The National hafa unnið áður saman, meðal annars fékk hann sveitina til að spila lagið „A lot of sorrow“ stanslaust í sex klukkutíma í MoMA fyrir nokkrum árum og meðlimir sveitarinnar hafa tekið þátt í öðrum verkum Ragnars.
Fyrr í mánuðinum kom út fyrsta bókin eftir leikarann og tvöfalda óskarsverðlaunahafann Tom Hanks. Bókin, sem nefnist Uncommon Type: some stories, er safn 17 smásagna sem tengjast innbyrðis í efnivið, í gegnum persónur og umfram allt í gegnum ritvélar. Bókin hefur fengið misgóða dóma. Melissa Katsoulis, gagnrýnandi Times, segir hana „nokkuð góða“ og gagnrýnandi NPR-útvarpsins segir að þótt bókin sé ekki frábær bjóði hún upp á „hjartnæman sjarma og nostalgíu eftir betri, einfaldari tímum“, á meðan gagnrýnandi The Guardian er harðari og segir flestar sögurnar vera auðgleymanlegar, í meðallagi og snertar af ómerkilegheitum þess sem hefur ekkert annað fram að færa en hæfilega ritfærni.