Biskup Íslands, Agnes M. Sigurðardóttir, sagði á dögunum að ekki væri siðferðislega réttlætanlegt að stela gögnum til þess að afhjúpa mál og leiða sannleikann í ljós. Þetta er vissulega sjónarmið sem deila má um, enda getur stundum verið svo mikilvægt að leiða sannleikann í ljós að prinsipp þurfi að víkja. Ekki kom á óvart að þessi orð biskups hafi víða fallið í grýttan jarðveg, háværar skammir dundu á Agnesi og nokkuð var um úrsagnir úr Þjóðkirkjunni. Píratinn Smári McCarthy sagði í grein í Morgunblaðinu að innantómur siðaboðskapur væri úreltur. Sennilega hefur hann þar átt við boðorðin tíu en í sjöunda boðorði segir einmitt: Þú skalt ekki stela. Það lýsir nokkurri dómhörku að hundskamma biskup fyrir að taka alvarlega boðorð sem eru meðal hornsteina kristinnar trúar. Ef biskup tekur þetta boðorð ekki alvarlega, hver á þá að gera það?