Málið kært til lögreglu – Voru í viku á svæðinu
Þeir sátu fimm illa á sig komnir fyrir utan slysavarnarskýlið í Höfn í Hornvík. Þar höfðu þeir lagt undir sig stolin mat, eigur annarra, reykt og drukkið. Nýtt kjöt sem lá í pottum og pokum. Fyrir utan skýlið var dauður selur sem var búið að flá að hluta. Refirnir voru þagnaðir. Í flæðarmálinu var merki um varðeld og þar var hálfbrunninn hauslaus lundi og nokkrir dauðir þorskar, ásamt veiðistöngum, háfum og snöru ásamt dauðum mávi. Svona lýsir Nanný Arna Guðmundsdóttir aðkomunni í Hornvík. Mennirnir fimm hafa verið kærðir til lögreglu. Eigandi ferðaþjónustufyrirtækisins sem skutlaði mönnunum í Hornvík fyrir viku síðan segist ekkert hafa með málið að gera. Hornvík er friðland.
Í samtali við DV segir Rúnar Karlsson eiginmaður Nannýjar.
„Ég held að það sé óhætt að fullyrða að þeir hafi stundað þetta í gegnum árin.“ Rúnar er eigandi ferðaþjónustufyrirtækisins Borea Adventures, aðspurður um hvort að fimm menn sem hann hafi gómað við að drepa dýr í Hornvík á Hornströndum. Hann segir mennina hafa verið á milli þrítugs og fimmtugs.
Rúnar ásamt eiginkonu sinni, Nanný Örnu voru á leið til vinnu í Hornvík, þegar meðal annars selshræ, dauðir mávar með skotsár og svartfuglsegg tóku á móti þeim, ásamt opnum eldi með rusli og grilli á grónu landi. Að sögn Rúnars hafi þau mætt í Hornvík, vegna uppsetningar tjaldbúða á svæðinu, þar sem þau bjóða ferðamönnum að vera, þegar ferðir á þeirra vegum standi yfir.
„Í neyðarskýlinu hafði hópur manna komið sér fyrir í leyfisleysi með byssur, háfa, net og veiðistangir og stundað ólöglegar veiðar á öllu sem hreyfist.“
Nanný segir:
Í landinu gilda ákveðnar reglur t.d um friðlandið á Hornströndum, um meðferð skotvopna, um veiðar á villtum dýrum og um umgengni við neyðarskýli sem að mér skilst á aðeins að nota í neyð. Nóttina áður gistu fjórir einstaklingar á tjaldsvæðinu í Höfn og urðu þeir áþreifanlega varir við djöfulganginn í mönnunum. Heyrði bæði byssuskot, sprengingu, þegar gaskútus sem þeir skutu á, sprakk og dýrahræ út um allt.
„Þeir fóru þarna á föstudaginn í síðustu viku við veiðar, þannig þeir eru búnir að vera þarna í rúma viku,“ segir Rúnar, sem telur sig vita hverjir mennirnir eru en hann ásamt eiginkonu sinni kærðu málið til lögreglu í morgun. Þá segir hann landvörð svæðisins hafa haft áhyggjur af bátunum, en að svæðið sé langt í burtu og þar með sé erfitt að bregðast við.
„Þetta var morðferð. Það átti að drepa allt,“ segir hann enn fremur. Að hans sögn hafi hann spjallað við einn mannanna í gær sem kvaðst vera miður sín yfir uppákomunni. Maðurinn sagði við Rúnar að upphaflega hafi ferðin átt að vera eggjatökuferð.
Að sögn Rúnars hafi mennirnir ætlað sér einnig að skjóta refi, en á þessu svæði hefur refurinn verið rannsakaður í mörg ár og er tegund refsins í Hornvík sjaldgæf. Við það bætir Rúnar að rannsóknir hafi einnig staðið yfir á atferli á stofninum í mörg ár.
Að sögn landvarðar í Hornvík voru bátar á vegum ferðaþjónustufyrirtækisins strandferdir.is í Hornvík.
„Nei, nei, nei, við komum ekki nálægt þessu,“ segir Jón Geir, forsvarsmaður fyrirtækisins. Hann segir mennina hafa verið farþega sem skutlað hafi verið fyrir viku síðan og síðan sóttir í gær. Hann vísar því á bug að fyrirtækið tengist því sem gerðist í Hornvík. Að sögn Jóns býður fyrirtækið upp á „skutlþjónustu“ á bátum þess. Fyrirtækið sérhæfir sig í skoðunarferðum um Hornstrandir, samkvæmt heimasíðu þess.
Rúnar bætir við að mennirnir hafi verið búnir að hreiðra um sig í neyðarskýli Björgunarfélags Ísafjarðar, en þar hafa þau fengið að geyma dót yfir veturinn sem tilheyrir tjaldbúðunum sem þau settu upp í gær. Að hans sögn hafi mennirnir verið búnir að nota eldhúsdót hjónanna, en hann segir bolla og diska hafa legið á víð og dreif. Þar á meðal hafi þau séð skál í bálkestinum.
Rúnar segist vera á leið í skýrslutöku síðar í dag, en málið var kært til lögreglu í morgun.
„Maður spyr sig hvaða svona mönnum gengur til. Mæta í friðlandið meira að segja þegar ferðamannatímabilið er byrjað og skjóta á hvað sem fyrir verður. Einhver myndi kalla svona lið hyski sem ætti ekki að vera með byssuleyfi. Engin virðing borin fyrir náttúrunni eða öðrum sem þarna vilja koma og njóta kyrrðarinnar.“