Fíkn afleiðing sjúkdóma eða áfalla – meðferðarúrræði gagnast ekki öllum
Hugmyndir Dr. Gabor Maté um t.d af hverju sumir verða alkóhólistar á meðan aðrir verða það ekki, hafa vakið gríðarlega athygli og mikið umtal útum allan heim.
„Því miður glímir stór hópur íslendinga við það böl sem alkahólismi er og allt of stórum hluta þeirra gagnast ekki þau meðferðarúrræði sem við bjóðum upp á. Við þekkjum flest einhvern sem tilheyrir þeim hópi,“ segir Máni Hrafnsson í samtali við DV í tilefni þess að Gabor Maté sem er á leið til landsins. Gabor er kanadískur læknir og einn fremsti fræðimaður heims á sviði ávanabindingar. Hann nýtur einnig virðingar fyrir athuganir sínar á athyglisbresti, þroska og hegðun barna og orsökum og meðferð streitu. Gabor heldur fyrirlestra í Hörpu 12. júní næstkomandi.
Dr. Maté er ungverskur gyðingur að uppruna, sem komst með naumindum lífs af úr seinna stríði og slapp svo ásamt fjölskyldu sinni vestur yfir járntjald eftir að ungverska uppreisnin 1956 fór út um þúfur. Fjölskyldan settist að í Vancouver í Bresku Kólumbíu á vesturströnd Kanada og þar menntaði hann sig, fyrst í ensku og bókmenntum, en söðlaði svo um og lærði til læknis, líkt og hugur hans hafði staðið til frá æsku. Máni ræddi komu Gabor við Vísi fyrir skömmu og sagði þá:
„Í staðinn fyrir að líta á fíkn sem sjúkdóm, hugsar hann frekar um fíkn sem afleiðingu af sjúkdómi, og reynir þar af leiðandi að komast að rót vandans.“
Hann bætir við að skoðanir Gabors grundvallist helst á beinum tengslum sálrænnar og líkamlegrar heilsu. Hefur hann starfað í árabil með einstaklingum með alvarlegan vímuefnavanda og fólki með geðraskanir. Hann segist ekki hafa neinar skyndilausnir fram að færa en í lækningum sínum flétti hann saman vísindarannsóknum, sjúkrasögum og eigin athugunum og reynslu með það að markmiði að gera sjúklingana að virkum þátttakendum í eigin bata.
„Hann starfaði í fjölda ára sem læknir fyrir einstaklinga með alvarlegan vímuefnavanda og fólki með geðraskanir á hinni alræmdu götu East-Hastings í Vancouver. Þar náði hann undraverðum árangri með verst settu einstaklingana þó að öll hefðbundin meðferðarúrræði hefðu brugðist þeim,“ segir Máni. „Þá er hann frumkvöðull í skaðaminnkun sem er hugmyndafræði sem Frú Ragnheiður verkefnið starfar eftir hér á Íslandi og heyrir undir Rauða krossinn.“
Máni segir í samtali við Vísi að hann hafi haft mikið fyrir því að ná í Gabor og sannfæra hann um að koma til Íslands en Gabor er yfirleitt bókaður tvö ár fram í tímann. Gabor telur meðal annars að rót vandans megi finna með því að vinna í sálrænum áföllum úr æsku og þannig vinna bug á fíkn.
„Ég tel og vona, að Gabor geti haft langvarandi jákvæð áhrif á íslenskt samfélag. Ég vona að hann geti sannfært fólk um skynsamlegri stefnu í fíkniefna og meðferðarmálum,“ segir Máni en upplýsingar um fyrirlestur Gabor á Íslandi má nálgast hér.