fbpx
Miðvikudagur 16.júlí 2025

Líkamleg og hugvíkkandi Listahátíð

Þrítugasta Listahátíð í Reykjavík – Pólitík líkamans í forgrunni – Hanna Styrmisdóttir stýrir hátíðinni í fjórða sinn

Kristján Guðjónsson
Mánudaginn 16. maí 2016 21:10

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Um næstu helgi hefst Listahátíð í Reykjavík í þrítugasta sinn. Fjölmargir stórir viðburðir og frumsýningar fara fram og heimsþekktir listamenn sýna listir sínar á þeim rúmlega tveimur vikum sem hátíðin stendur, 21. maí til 5. júní.

Hátíðin í ár ber yfirskriftina „Síðari hluti“ því annað árið í röð er unnið að því að rétta hluta listakvenna á hátíðinni. Þó að þær séu sjálfstæðar mynda hátíðirnar í fyrra og í ár eins konar heild og hlutarnir tveir marka á sama tíma þáttaskil í sögu Listahátíðar, en ákveðið hefur verið að hún verði aftur að tvíæringi – eins og hún var frá stofnun árið 1970 til 2005.

DV spjallaði við Hönnu Styrmisdóttur, listrænan stjórnanda hátíðarinnar, og spurði hana um hátíðina í ár, um jafnrétti í listum, um hvort Listahátíð eigi ennþá erindi við íslenskt menningarlíf og hennar eigin framtíð eftir fjögur ár í starfinu.

Sjá einnig: Beinbrjótandi götudans og tilraunakennd hámenning

Síðari hluti kvennaársins

Margar helstu menningarstofnanir landsins notuðu tækifærið í fyrra, á hundrað ára kosningaafmæli íslenskra kvenna, og einbeittu sér sérstaklega að list kvenna. Þegar rýnt var í tölur yfir listakonur sem höfðu komið fram á Listahátíð í Reykjavík á árunum 1970 til 2012 varð ljóst að verulega hallaði á þær: í myndlistinni voru konur 30% þátttakenda, í heimstónlist voru þær 40% og aðeins 9% á popptónlistarsviðinu (í bókmenntum var reyndar óvenjulega mikið jafnræði með kynjunum þar sem konur voru 55% þátttakenda).

Við vildum ekki bara lyfta konum upp í eitt ár og fara svo aftur í sama farið.

„Við vildum nota þetta tækifæri til að breyta áherslum hátíðarinnar,“ útskýrir Hanna Styrmisdóttir.

„Hlutur kvenna á henni hefur ekki verið jafn góður og karla og við vildum nota þetta tækifæri til að byrja að snúa því við. En við vildum ekki bara lyfta konum upp í eitt ár og fara svo aftur í sama farið,“ segir hún. Því var ákveðið að tileinka konum hátíðina tvö ár í röð í þeirri von að jafnvægið yrði smám saman meira.

„En þetta er sjálfstætt framhald. Hver hátíð er algjörlega sitt eigið fyrirbæri,“ segir Hanna.

Tónninn á hátíðinni í ár er þannig kannski ekki jafn herskár og í fyrra, þegar femíníski listahópurinn Guerilla Girls vakti máls á bágri stöðu kvenna í íslenskum kvikmyndaiðnaði í opnunargjörningi hátíðarinnar, en listakonur eru þó sérstaklega áberandi á hátíðinni.

Ópera eftir Önnu Þorvaldsdóttur
UR_ Ópera eftir Önnu Þorvaldsdóttur

Hanna nefnir til dæmis Terri Lynn Carrington, fyrstu konuna til að hljóta Grammy-verðlaunin fyrir instrumental-djassplötu, en hún hefur fengið til liðs við sig nokkrar af færustu djasslistakonum heims og munu þær koma fram á tónleikum í Hörpu. Þá sýnir belgíska myndlistarkonan Berlinde de Bruyckere teikningar og skúlptúra í Listasafni Íslands, UR_, ný ópera eftir Önnu Þorvaldsdóttur verður frumsýnd, auk nokkurra nýrra listasýninga eftir íslenskar myndlistarkonur.

Líkaminn í forgrunni

Það er þó ekki síður í umfjöllunarefnum verka á hátíðinni sem ákveðin pólitísk afstaða er falin.
„Þegar ég fór að vinna þessa hátíð fór ég að hugsa æ meira um mannslíkamann – líkamann sem grunninn að öllum okkar hugmyndum um frelsi og mannréttindi,“ segir Hanna og bendir á hvernig mörg verkanna á hátíðinni í ár noti líkamann þannig sem vettvang pólitískra vangavelta.

Hvort sem það er nauðgun Lucreciu sem er eitt meginatriðið í verki G.F. Händels sem Sigríður Ósk Kristjánsdóttir syngur brot úr, spurningar um heilann og góðmennsku í dansverkinu Play með Shantölu Shivalingappa og Sidi Larbi Cherkaoui, líkamlegir skúlptúrar Berlinde de Bruyckere eða áherslan á dansinn sem er sérstaklega áberandi á hátíðinni í ár.

Einn stærsti viðburður hátíðarinnar verður flutningur San Francisco-ballettsins á verkum Helga Tómassonar, en á hinum enda dansrófsins verður götudanshópurinn FlexN. „Það er eiginlega ekki hægt að sýna meiri breidd í dansinum á einni hátíð,“ segir Hanna

Það skiptir svo miklu máli að sjá lífsreynslu sína og upplifun endurspeglaðar í menningunni.

Hún bendir einnig á hvernig hinn einstaki dansstíll Flexing, sem verður sýndur í opnunarverki hátíðarinnar, hefur á undanförnum árum öðlast aukið pólitískt vægi í huga Flex-frumkvöðulsins Reggie Roc. Eftir morð lögreglu á ungum bandarískum blökkumönnum og uppgang mannréttindahreyfingarinnar Black Lives Matter hefur hann séð hvernig flexing getur verið valdeflandi og hjálpað ungu fólki að tjá og túlka persónulega upplifun sína, meðal annars af rasisma og fátækt.

Mér fannst opnunaratriðið einmitt vera vel til fundið vegna hinnar miklu grósku sem er í götudansi á Íslandi í dag, meðal annars hjá ungum Íslendingum sem eru af erlendu bergi brotnir.

„Já, það skiptir svo miklu máli að sjá lífsreynslu sína og upplifun endurspeglaða í menningunni. Ég hugsaði mikið um þetta í fyrra í tengslum við höfundarverk kvenna og þá ritskoðun sem þær hafa orðið fyrir. Ég hef heyrt margar konur tala um að þær hafi misst áhugann á að sækja menningarviðburði af því að þær sáu ekki reynslu sína endurspeglaða í verkunum. Ungt fólk þarf líka að sjá reynslu sína endurspeglaða í hátíð eins og Listahátíð.“

Mynd: Anthony Crook

Þverfagleg sveitahátíð

Hanna segir að sýningar á verkum Helga Tómassonar rími einnig við annað markmið hátíðarinnar í ár, en það er að líta til baka yfir farinn veg, nú þegar Listahátíð í Reykjavík er haldin í þrítugasta skipti.

Hún var haldin í fyrsta skipti árið 1970 en meðal hvatamanna að stofnun hennar voru hljómsveitarstjórinn Vladimir Ashkenazy og Ivar Eskeland, forstjóri Norræna hússins. Á þeim tíma var mjög lítið um að vera í íslensku menningarlífi, það voru algjörar undantekningar ef erlendir listamenn komu til landsins og engar reglulegar lista- og menningarhátíðir haldnar í borginni. Hátíðin gerði sér því far um að sinna öllum listformum, en það segir Hanna vera einkenni á smábæja- og sveitahátíðum á meðan borgarhátíðir séu yfirleitt sérhæfðari.

„Hátíðin varð að vera þverfagleg því hér var ekkert annað í gangi. En það hefur gert að verkum að hátíðin sker sig mjög mikið úr. Það eru nokkrar hátíðir þverfaglegar á svipaðan hátt og Listahátíð en slíkar hátíðir hafa þá einhverja ákveðna áherslu og skýran fókus,“ segir Hanna.

„Ég hef mest horft til Manchester International Festival sem einbeitir sér að nýjum verkum: hún hefur frumkvæði að því að panta verk, frumsýna verk og leiða saman listamenn úr ólíkum og oft óvæntum áttum. Þar sem þetta er áherslan er fólk lítið að velta fyrir sér hvort eitthvað heitir myndlist, sviðslist eða tónlist.“

Framboðið eykst en breiddin minnkar

Á þeim 46 árum sem hátíðin hefur verið haldin hefur umhverfið gjörbreyst. Framboðið af menningarviðburðum hefur aukist ævintýralega, sérstaklega frá og með árinu 2000 þegar Reykjavík varð ein af menningarborgum Evrópu.
Árið 2005 var ákveðið að gera hátíðina árlega, þar sem annað hvert ár yrði einblínt á myndlist með stórum alþjóðlegum myndlistarsýningum. En af ýmsum ástæðum, meðal annars vegna kostnaðar og minni tekjumöguleika, rann þetta fyrirkomulag fljótt út í sandinn.

Mér sýnist þetta hafa gerst, þegar framboðið hefur aukist á síðustu árum hefur breiddin samt alltaf verið að minnka.

Mikilvægi og stærð Listahátíðar hefur verið umtalsvert minni undanfarinn áratug en lengi framan af. Eðli málsins samkvæmt hefur ekki verið hægt að halda úti jafn veglegri dagskrá þegar hátíðin er haldin árlega, auk þess sem framlög til hátíðarinnar hafa minnkað og á sama tíma hafa glæsilegir listviðburðir orðið daglegt brauð fyrir Íslendinga.
En þó að framboðið í Reykjavík hafi aukist stórkostlega segir Hanna það ekki endilega hafa skilað sér í stórum metnaðarfullum listsýningum á borð við þær sem Listahátíð hefur staðið fyrir – meðal annars vegna niðurskurðar til liststofnana.

„Niðurskurður hjá söfnunum hefur haft þær afleiðingar að þau hafa ekki lengur sama möguleika á að koma með stórar erlendar sýningar af hinum alþjóðlega myndlistarvettvangi til landsins. Sýningar- og tryggingakostnaður getur verið gígantískur. Það er því stöðugur þrýstingur á menningarstofnanir að setja á dagskrá metsölusýningar á kostnað sýninga, viðburða eða tónleika sem kafa dýpra. En þegar þetta gerist þrengist sjónarhorn okkar á listina smám saman, og það er í sjálfu sér mjög alvarlegt. Mér sýnist þetta hafa gerst, þegar framboðið hefur aukist á síðustu árum hefur breiddin samt alltaf verið að minnka,“ segir Hanna og bendir á að nauðsynlegt sé að vinna að skýrari stefnumótun í kjölfar þeirrar sprengingar sem orðið hefur í menningarframboði á síðustu árum.

Verður aftur tvíæringur

Undir lok síðasta árs var tilkynnt að Listahátíð í Reykjavík yrði aftur að tvíæringi. Þannig verður hátíðin haldin næst árið 2018. Hanna telur þetta vera skref í rétta átt til að styrkja hátíðina á ný, bæði listrænt og rekstrarlega, og hefja hana yfir hið daglega flæði menningarviðburða. „Það er mjög erfitt að gera hátíð af sama umfangi þegar hún er haldin á hverju ári, og það er í raun ekkert samfélag sem getur meðtekið svo risavaxið fyrirbæri á hverju ári.“

En þú álítur sem sagt að hátíðin sé ekki bara barn síns tíma, að hún geti enn leikið mikilvægt hlutverk í íslensku menningarlífi?

„Já, en þá þyrfti hún helst að verða sjálfstæðari. Hugmyndin er að Listahátíð starfi með öllum menningarstofnunum í landinu. Það getur verið mjög gefandi og frjótt samstarf, en þegar sverfur að getur það orðið til þess að dagskrá Listahátíðar endurspegli fyrst og fremst það sem er á dagskrá samstarfsstofnana hennar hverju sinni,“ segir Hanna.

Mér þætti mjög áhugavert að stýra tvíæringi.

„Hlutverk Listahátíðar í stórum samstarfsverkefnum hefur oft fyrst og fremst verið að fjármagna og kynna. Mér hefur hins vegar þótt mikilvægt að hátíðin sé meiri gerandi. En hvort sem hún er gerandi, hefur frumkvæði að hlutunum eða er fyrst og fremst í því hlutverki að leiða saman, fjármagna og kynna, hefur fjárhagslegt bolmagn hennar mikið að segja,“ segir hún.

Hanna segist telja að hátíðin eigi hins vegar að einbeita sér að nýjum verkum, frumsýningum og alþjóðlegum samstarfsverkefnum sem gera listamönnum kleift að vinna að og sýna stærri verk á hátíðinni. Þá leggur Hanna áherslu á hversu mikilvægt hlutverk hátíðin hafi leikið í kynna fyrir Íslendingum erlenda listamenn og menningarstrauma sem þeir hefðu aldrei annars kynnst. „Hún hefur verið svo hugvíkkandi og stækkað sjóndeildarhringinn svo mikið,“ segir hún.

Fjögurra ára ráðningartíma Hönnu sem listræns stjórnanda hátíðarinnar lýkur eftir hátíðina í ár og samkvæmt reglum hátíðarinnar mun starfið verða auglýst. Hún segist hins vegar ekki hafa gert upp við sig hvort hún muni sækja um aftur. „Ég er ekki enn búin að gera það upp við mig. En mér þætti mjög áhugavert að stýra tvíæringi,“ segir Hanna.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 3 klukkutímum

Afi í fyrsta sinn og er í skýjunum – Hinn afinn fastur í fangelsi og er sagður stjórna glæpagengi

Afi í fyrsta sinn og er í skýjunum – Hinn afinn fastur í fangelsi og er sagður stjórna glæpagengi
Fréttir
Fyrir 3 klukkutímum

Afmælisveislan breyttist í martröð – Sakaður um grófa nauðgun í endaþarm en sýknaður

Afmælisveislan breyttist í martröð – Sakaður um grófa nauðgun í endaþarm en sýknaður
Fókus
Fyrir 4 klukkutímum

Segir frá leyndarmálinu við að taka fallegar bikinímyndir

Segir frá leyndarmálinu við að taka fallegar bikinímyndir
433Sport
Fyrir 4 klukkutímum

Klopp áttar sig ekki á því hvar Slot ætlar að spila Wirtz

Klopp áttar sig ekki á því hvar Slot ætlar að spila Wirtz
433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Leicester búið að ráða eftirmann Van Nistelrooy

Leicester búið að ráða eftirmann Van Nistelrooy
Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum

Framkvæmdastjóri Parka skýrir málin – „Við erum í sama liði og neytendur“

Framkvæmdastjóri Parka skýrir málin – „Við erum í sama liði og neytendur“
Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum

Háttsettir embættismenn og auðkýfingar hrynja eins og flugur

Háttsettir embættismenn og auðkýfingar hrynja eins og flugur
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Jarðskjálftahrina í Sundhnúksgígaröðinni – Eldgos talið yfirvofandi

Jarðskjálftahrina í Sundhnúksgígaröðinni – Eldgos talið yfirvofandi
Pressan
Fyrir 16 klukkutímum

Fjögurra manna fjölskylda hvarf og engin merki um átök – Hver var nógu illgjarn til að berja fjölskylduna til bana?

Fjögurra manna fjölskylda hvarf og engin merki um átök – Hver var nógu illgjarn til að berja fjölskylduna til bana?