Panamaskjölin leiða í ljós að Guru Invest fjármagnaði verkefni á Bretlandi og á Íslandi
Upplýsingar sem finna má í Panama-skjölunum leiða í ljós að hjónin Ingibjörg Pálmadóttir og Jón Ásgeir Jóhannesson hafa fjármagnað fjárfestingar sínar í Evrópu og Íslandi með fé frá félaginu Guru Invest sem skráð er í Panama. Kjarninn og Stundin fjalla um þetta í dag.
Ingibjörg sagði meðal annars í samtali við DV í gær að það hafi löngum verið ljóst að hún hafi stundað viðskipti erlendis og í tegnum það tengst fjölda félaga erlendis, sem í „einhverjum tilfellum kunna að flokkast sem aflandsfélög“.
Félagið sem Kjarninn og Stundin fjalla um hét upphaflega OneOOne Entertainment S. A. og var það stofnað árið 2007 af panamísku lögfræðistofunni Mossack Fonseca fyrir Landsbankann í Lúxemborg. Landsbankinn kom fram við skráningu fyrir hönd viðskiptavinar síns, eftir því sem Kjarninn greinir frá. Prókúruhafar voru þau Ingibjörg og Jón Ásgeir og voru því öll völd í félaginu í höndum þeirra tveggja.
Árið 2010 var óskað eftir því við Mossack Fonseca að Ingibjörg fengi heimild fyrir því að opna bankareikning fyrir félagið hjá Credit Suisse í Lúxemborg og sömuleiðis var farið fram á að nafninu yrði breytt í Moon Capital S.A. Síðar árið 2010 var nafni félagsins breytt aftur, nú í Guru Invest S.A, samkvæmt frétt Kjarnans.
Í gögnunum sem Kjarninn vitnar til í umfjöllun sinni kemur fram að Guru Invest hafi greitt rúmlega tveggja milljarða króna skuld Gaums fjárfestingarfélags, móðurfélags Baugs, við slitastjórn Glitnis árið 2010. Þá sýni gögnin að rekstur íþróttavöruverslunarinnar Sports Direct á Íslandi sé að hluta til í eigu Guru Invest, en verslunin opnaði hér á landi árið 2012. Í umfjöllun Stundarinnar kemur fram að móðurfélag verslunarinnar sé í Lúxemborg og heiti Rhapsody Investmens S.A. Framkvæmdastjóri verslunrinnar er sonur Ingibjargar, Sigurður Pálmi Sigurbjörnsson.
Fleiri félög en Guru Invest eru sögð tengjast Jóni Ásgeiri í gögnunum. Samkvæmt umfjöllun Stundarinnar tengist hann líka félögunum Abernathy Equtites Inc. á bresku Jómfrúareyjum þar sem hann var skráður sem hluthafi. Þá er félagið Jovita Inc. einnig nefnt til sögunnar en það var stofnað árið 2007 og lánaði íslensku eignarhaldsfélagi Jóns Ásgeirs, Þú Blásól ehf. tæplega 150 milljónir króna rétt fyrir hrunið árið 2008. Þess ber að geta að bæði þessi félög hafa hætt störfum en Guru Invest er enn starfandi. Engar upplýsingar er þó að finna um hversu miklar eignir eru í félaginu, samkvæmt þeim gögnum sem vitnað er til.