
Framtíð Mohamed Salah er í nokkurri óvissu, en hann er óvænt orðaður við endurkomu til Ítalíu í miðlum þar í landi.
Salah setti allt í háaloft fyrir áramót þegar hann hjólaði í Arne Slot og fleiri hjá Liverpool eftir bekkjarsetu í leikjunum á undan. Búið er að slökkva þá elda að mestu.
Egyptinn, sem er staddur með þjóð sinni í Afríkukeppninni sem stendur, er þó orðaður við brottför, þrátt fyrir að hafa skrifað undir nýjan tveggja ára samning á Anfield í vor.
Sádi-Arabía hefur einna helst verið nefnd sem áfangastaður Salah en nú segir La Repubblica að Roma séu að undirbúa óvænt tilboð í hann.
Þess má geta að Salah gekk í raðir Liverpool frá Roma 2017, en hann hefur einnig leikið með Fiorentina á Ítalíu.