

Jin Sha, fræg kínversk söngkona, fékk bónorð frá kærasta sínum Sun Cheng á Íslandi á dögunum. Málið hefur vakið athygli í heimalandinu enda er hann tæpum 20 árum yngri en hún.
Jin Sha, sem er 44 ára gömul, vakti fyrst athygli sem leikkona í byrjun aldarinnar en hefur síðan verið betur þekkt sem söngkona sem syngur svokallaða mandopopp. Það er djassskotið popp með mandarínskum textum.
Á aðfangadag birtist myndband af Sha og kærasta hennar, hinum 25 ára Sun Cheng, þar sem hann var að biðja hennar á Breiðamerkursandi, sem kallast í daglegu tali Diamond Beach á ensku.
Fyrst var greint frá sambandi þeirra árið 2023 í raunveruleikasjónvarpsþættinum Viva La Romance. Fór sambandið fyrir brjóstið á mörgum íhaldssömum Kínverjum sem hæddust að parinu og kölluðu sambandið mæðginasamband.

Þá hefur Sun Cheng, sem er nýútskrifaður leikari sjálfur, verið gagnrýndur og sagður vera að nota Jin Sha til þess að komast inn í bransann.
Aðrir hafa brugðist jákvæðari við sambandinu og óskað þeim velfarnaðar. Segja að aldurinn skipti ekki öllu máli þegar ástin sé annars vegar.