

Nýverið hóf Þjóðkirkjan rafrænar skráningar í kirkjubækur og er óhætt að segja að tilraunin hafi gefist vel hingað til. Opnað var fyrir skráningar í rafræna kerfið fyrsta sunnudag í aðventu í ár og er því komin rúmlega þriggja vikna reynsla á kerfið.
58 kirkjur hafa nú skráð upplýsingar um athafnir, helgihald og skólaheimsóknir, svo eitthvað sé nefnt.
Skráðar eru heimsóknir frá 102 leik- og grunnskólum þessa aðventuna, og komu samtals 5.739 skólabörn í kirkjur í þeim heimsóknum. Þá sóttu rúmlega 11 þúsund einstaklingar helgihald og aðventustundir í þessum 58 kirkjum. Enn fremur má lesa að 6.400 einstaklingar voru viðstaddir 70 athafnir í þessum kirkjum.
Samtals eru skráðar heimsóknirnar í þessar 58 kirkjur 23.335 á aðventunni.
Í nýju viðburðadagatali á kirkjan.is má finna upplýsingar um guðsþjónustur, aftansöng, fjölskyldumessur o.fl. í kirkjum Þjóðkirkjunnar næstu daga og vikur. Viðburðirnir eru á fimmta hundrað. Þetta er í fyrsta skipti sem hægt er að finna upplýsingar um allt helgihald Þjóðkirkjunnar á einum stað fyrir hátíðirnar. Hægt er að sjá viðburði kirkjunnar á kirkjan.is/vidburdir og á viðburðadagatali Vísis á visir.is.
Búist er við góðri kirkjusókn yfir hátíðirnar í ár sem fyrr.