
Elías Már Ómarsson er genginn í raðir Víkings, en þetta var staðfest rétt í þessu.
Elías er þrítugur og kemur frá Meizhou Hakka í Kína, en hann hefur einnig spilað í í Frakklandi, Hollandi, Svíþjóð og Noregi í atvinnumennsku.
Bætist hann í ógnarsterkan hóp Íslandsmeistara Víkings, sem ætla sér stóra hluti á næsta ári.
Tilkynning Víkings
Kæru Víkingar, við erum komin í hátíðarskap og það gleður okkur að tilkynna að Elías Már Ómarsson hefur skrifað undir 3 ára samning við knattspyrnudeild Víkings.
Elías Már, fæddur árið 1995 og hefur spilað í Noregi, Svíþjóð, Hollandi, Frakklandi og í Kína á sínum atvinnumannaferli. Elías kemur til liðsins frá Meizhou Hakka í Kína þar sem hann skoraði fjögur mörk og lagði upp tvö í 14 leikjum. Elías á að baki níu A-landsleiki og 33 landsleiki fyrir yngri landslið Íslands.
Elías er sóknarmaður og hefur skorað alls staðar þar sem hann hefur spilað. Samtals 399 leikir á ferlinum með félagsliðum, 131 mark og 26 stoðsendingar.
Knattspyrnudeild Víkings býður Elías Má Ómarsson hjartanlega velkominn í Hamingjuna.