
Breiðablik er úr leik í Sambandsdeildinni þetta tímabilið eftir tap gegn ógnarsterku liði Strasbourg í Frakklandi í lokaumferð deildarkeppninnar.
Blikar þurftu sigur til að fara í útsláttarkeppni og gáfu klárlega allt sitt, auk þess sem liðið skapaði sér nokkur góð færi.
Sebastian Nanasi kom Strasbourg yfir á 11. mínútu en Höskuldur Gunnlaugsson jafnaði fyrir Blika tæpum hálftíma síðar. Staðan í hálfleik 1-1.
Strasbourg var mun öflugri aðilinn í seinni hálfleik og komst verðskuldað yfir á ný á 80. mínútu með marki Martial Godo. Julio Enciso, fyrrum leikmaður Brighton og Ipswich í ensku úrvalsdeildinni, innsiglaði svo 3-1 sigur.
Blikar ljúka deildarkeppninni með fimm stig.
Albert Guðmundsson lék um 20 mínútur þegar vandræði Fiorentina héldu áfram. Liðið tapaði 1-0 fyrir Lausanne í Sviss og þarf að fara í umspil.
Logi Tómasson var þá á sínum stað í byrjunarliði Samsunspor er liðið tapaði gegn Mainz, 2-0. Tyrkirnir fara einnig í umspilið.