

Þetta segir Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.
Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að fallið yrði frá því að fækka akreinum á Suðurlandsbraut úr fjórum í tvær var felld á fundi borgarstjórnar á þriðjudag. Kjartan bendir á að til standi að taka tvær akreinar af almennri umferð á drjúgum kafla Suðurlandsbrautar og gera þær að sérakreinum fyrir borgarlínu.
Deiliskipulagstillaga þess efnis er nú til meðferðar í borgarkerfinu og segir Kjartan að hún sé í fullu samræmi við þá stefnu vinstri flokkanna að auka umferðartafir með því að þrengja að umferð í Reykjavík. Hann segir það blasa við að umferðartafir í aðliggjandi hverfum munu stóraukast takist meirihlutanum ætlunarverk sitt.
„Suðurlandsbraut er ein helsta umferðaræð borgarinnar en um hana fara um 25 þúsund bifreiðar á dag. Gatan er mikilvæg tengibraut milli austurs og vesturs og þjónar fjölmennum íbúðahverfum og atvinnuhverfum. Fækkun akreina úr fjórum í tvær mun því leiða til stóraukinna og kostnaðarsamra umferðartafa. Jafnframt stefnir meirihlutinn að fækkun bílastæða við götuna. Nú þegar eru bílastæði af skornum skammti þar og er gjarnan setið um hvert stæði sem losnar,“ segir Kjartan.
Hann segir að þrenging brautarinnar og fækkun bílastæða muni þrengja mjög að atvinnufyrirtækjum og vinsælum veitingastöðum á svæðinu og hafa neikvæð áhrif á rekstur þeirra.
„Mörg fyrirtæki við brautina hafa látið áhyggjur sínar í ljós vegna fyrirhugaðrar fækkunar akreina og bílastæða á svæðinu. Alfarið er lagst gegn því að þannig verði þrengt að einu helsta verslunar- og þjónustusvæði borgarinnar. Stjórnendur sumra fyrirtækja hafa sagt að með slíkum breytingum verði þau knúin til að flytja úr götunni og jafnvel úr borginni,“ segir hann í grein sinni og bendir á að allir húseigendur við Suðurlandsbraut 2-32 hafi mótmælt fyrirhuguðum breytingum en talað fyrir daufum eyrum fulltrúa borgarinnar.
Kjartan segir að mögulegt sé að stórbæta almenningssamgöngur með því að ráðast í skilvirkar endurbætur á núverandi strætókerfi í stað þess að bíða eftir borgarlínu til ársins 2032. Hann bendir á að umferðartafir á höfuðborgarsvæðinu hafi aukist mjög undanfarin ár vegna stefnu meirihlutans.
„Tafirnar eru ekki tilviljun heldur markvisst mynstur, sem skapað hefur verið í því skyni að þrengja að fólksbílum. Ljóst er að kostnaður einstaklinga vegna þessa tafaskatts vinstri flokkanna er ekki undir sextíu milljörðum króna árlega. Þjóðhagslegur kostnaður er hins vegar mun hærri.“