

Jasmina Vajzovic, stjórnmálafræðingur og fyrrverandi bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ, flutti hingað til lands frá Bosníu fyrir þremur áratugum. Jasmina hefur oft tjáð sig um ummæli þeirra sem segja útlendinga sem hingað flytjast ekki aðlagast samfélaginu. Segist hún oft heyra alls konar alhæfingar um múslimi, sjálf segist hún stoltur múslimi í færslu þar sem hún fjallar um jólin og hvort hún teljist jólabarn eða ekki.
„Við heyrum allskonar alhæfingar í dag um múslima. Helst það að þau eyðileggja samfélög því þau vilja ekki aðlagast. Og miklu verra oft á tíðum. En ég get sagt með stolti að ég er múslimi. Ég hef reyndar aldrei verið trúuð enda ólst ég upp í kommúnisma þar sem trú var ekki forsenda tilvistar.“
Jasmina segist vera jólabarn, en ekki svona „kerti á aðventukransinum og piparkökur í rómantísku ljósi“- jólabarn heldur „syng jólalög í flugvél, fæ sjúklega löngun til að ræna jólaskrauti og vil helst setja ljósaseríu á allt“-jólabarn.
Segir hún manninn sinn hafa sagt að hann hafi aldrei á ævinni hitt jafn mikið jólabarn.
„Hann giftist múslimski konu svo hann þurfi ekki að skreyta á jólunum grínast hann alltaf með. Og það er gaurinn sem þekkir mig í öllum mínum útgáfum, ramadan ég, þreytt í nóvember ég, reið yfir rasshausum í umræðunni ég. Samt er það jólaútgáfan sem fær hann til að lyfta brúnum og segja: „OK, þetta er orðið gott!“
Jasmina segir að hún hafi nýlega farið til Glasgow, þar sem borgin var bókstaflega böðuð í jólaljósum og búðirnar yfirfullar af skrauti. Segist hún hafa velt fyrir sér hvernig hún ætti að smygla hálfri verslunarmiðstöðinni heim með sér.
„Ég, múslimi, að skipuleggja smygl á jólaskrauti. Einhvers staðar í kommentakerfi er einhver að skrifa: „Þau vilja bara breyta menningunni okkar.“ Nei elsku hjartað. Ég vil bara fleiri jóla ljós og skraut.“
Segist hún hafa verið í þvílíku jólaskapi í vélinni á heimleið, þar sem jólalag hafi verið spilað og hún sungið með. Flugfreyjan hafi komið brosandi til hennar og sagt við hana: „Þú hlýtur að vera mesta jólabarnið í allri vélinni.“ Segist Jasmina það skondið að á sama tíma og flugfreyjan stimplar hana sem jólabarn dagsins sé einhver heima á Íslandi væntanlega að skrifa status um að „svona fólk aðlagast ekki“.
Jasmina segist oft heyra setninguna: „Þau geta ekki aðlagast.“ Spyr hún hvað þurfi að koma til svo að innflytjendur teljist hafa aðlagast.
„Mig langar stundum í einfalt Excel-skjal með skýrum viðmiðum. Á maður að elska sultur og hangikjöt til að teljast inn? Fæst „aðlögunarpunktur“ fyrir hverja ljósaseríu? Missir maður stig ef mamma manns býr ekki í sveit? Hvað í @&kr?;”$><%}+ þýðir „aðlagast“ í alvöru? Ég tala íslensku. Ég vinn. Ég tek þátt í samfélaginu. Ég hlæ, skipti um skoðun, pirrast, tek til, kaupi ruslapoka, horfi á lélega sjónvarpsþætti og reyni að muna hvar ég lagði bílinn. Ég er meira að segja farin að rífast um jólaskraut. Ég ætla ekki fara út í það hvað ég elska hákarl að eitt lykkja af slíkri dásemd hangir hér fyrir utan á kofanum. Hvað þá súra hrútspunga sem ég fæ löngun í oft á ári. Ekki einu sinni að ég elska vélinda sem systir Einars eldar og ég borða með bestu lyst. Margir Íslendingar vita ekki hvað það er því ég þarf alltaf útskýra vélinda. Var ég búin nefna að ég er með kofa fyrir allt jólaskraut sem ég á? Eða að við erum oft með mest skreyta húsið? Hvers konar „aðlögun“ er nákvæmlega í gangi í hausnum á fólki sem heldur samt að ég sé einhvern veginn fyrir utan þetta?“
Jasmina bendir á að atundum virðist sumum þægilegra að sjá innflytjendur annaðhvort sem fórnarlömb sem hægt er að vorkenna eða sem vandamál sem hægt er að kvarta yfir. „Það er eins og það sé ákveðin regla: Við megum vera þögul, þakklát og lítt sýnileg en um leið og við höfum húmor, skoðanir og of margar ljósaperur, þá verður þjóðarvitundin eitthvað stressuð.“
Segist hún síðast hafa fengið að heyra það í gær að ef hún gæti ekki aðlagast þá ætti hún að drulla sér heim til sín. Og það af því að hún tjáði skoðun á máli sem varðar þjónustu sem hún greiðir fyrir.
Segir hún kaldhæðnina vera þá að hún haldi ekki upp á jól sem trúarhátíð.
„Ég er ekki að skipta um trú, ekki að taka upp jólahefðir sem heilaga skyldu. Ég er bara heilluð af því fallega: ljósunum í myrkrinu, skrautinu sem gerir gráan raunveruleika aðeins fáránlegri og litríkari, stemmingunni þegar fólk einu sinni á ári nennir aðeins meira að gleðja sjálft sig og aðra. Fyrir mig eru jólin ekki trúarleg skylda heldur árstíð þar sem heimurinn fær smá andlit: minna af gráu, meira glimmer.
Ef ég er ógn við „íslenska menningu“ vegna þess að mig langar að taka jólaskrautið í Glasgow með mér heim, þá er vandinn ekki ég. Þá er vandinn fáránlega viðkvæm sjálfsmynd sem hrynur ef einhver „af öðru uppruna“ hengir upp ljós. Ef tilvist mín sem jólabarns-múslima er svona hættuleg, þá segir það meira um viðkvæmni kerfisins en um mig.
Svo ef við setjum þetta saman:
Múslimi? Já.
Jólabarn? Alvarlega já.
Aðlögun? Ef hún mælist í ljósaperum, söng og húmor, þá er ég yfir meðallagi.“
Jasmina endar færslu sína á að segja að jólaskrautið sé á leiðinni upp heima hjá henni.
„Og ef einhver rasshaus vill samt halda áfram að troða mér í reitinn „aðlagast ekki“ á meðan ég sit í flugvél og syng „hátíð í bæ“… þá er það líka allt í lagi. Ég ætla bara að auka í – og syngja hærra. Kannski syng ég þetta lag því hátíð er víst eitthvað sem við múslimar viljum nota frekar en ekki jól?“