

Breski blaðamaðurinn, Harry Wallop, gerði athyglisverða tilraun á dögunum en þá lét hann mæla heilsu sína fyrir og eftir viku af talsverðri áfengisneyslu. Áður en að tilraunin fór í gang hélt Wallop sig frá áfengi í tíu daga.
Segja má að neysla áfengis sé inngróin í breskt samfélag og aldrei er meira um slíkt en um jólahátíðina. Wallop ákvað því að fara í ítarlega heilsufarsmælingu og taka svo heila viku þar sem hann sullaði duglega í áfengi án þess þó að verða nokkru sinni verulega ölvaður. Skráði hann vandlega hvern drykk og magn sem hann lét í sig og mun eflaust koma mörgum á óvart hvaða magn dugði til þess að almennt heilbrigði hans lét verulega undan.
Dagur 1: Tveir fordrykkir/einfaldir kokteilar, þrjú hvítvínsglös og tveir litlir bjórar.
Dagur 2: Lítill bjór, tvö vínglös
Dagur 3: Tvö vínglös og tvöfaldur viskí
Dagur 4: Fimm vínglös
Dagur 5: Eitt vínglas
Dagur 6: Tók sér pásu og drakk ekki neitt
Dagur 7: Jólaglögg og þrír stórir bjórar.
Miðað við ráðleggingar breskrar lýðheilsuyfirvalda var þetta magn rúmlega þrisvar sinnum yfir mörkum þess sem hættulaust getur talið að neyta. Áhrifin á líkamlega og andlega heilsu blaðamannsins voru síðan eftirfarandi:
Fyrst var lifrarstarfsemi hans mæld og voru engar sjáanlegar breytingar á henni.
Það sama var ekki sagt um aðrar mælingar. Í styrktarmælingu fyrir vikuna blautu gat Wallop kreist með vinstri hendi sinni af afli sem nam 39,7 kg. Viku síðar sýndi þessi styrktarmæling 34,3 kg. sem gaf til kynna að vöðvastyrkur hans hefði gefið eftir og hann virtist vera dasaður.
Sömu sögu var að segja af jafnvægisæfingu sem hann undirgengst. Viku fyrr hélt hann jafnvægi í 10 sekúndur standandi á einum fæti, þeim vinstri, en viku síðar var mælingin aðeins 3 sekúndur.
Þá voru viðbrögð hans mæld með æfingu þar sem hann átti að mæla viðbrögð sín með því að smella á tölvumús þegar hann heyrði tiltekið hljóð. Viðbrögðin voru 238 millisekúndur að meðaltali vikuna áður en voru komin niður í 353 millisekúndur eftir sullvikuna. Niðurstöður læknanna voru að árvekni hans væri sýnilega skert og heilastarfsemin aðeins hægari.
Wallop tók einnig ýmsar æfingar sem reyndu á minni, rökhugsun og útsjónarsemi. Niðurstöðurnar voru þær að minni hans hafði sýnilega hrakað, „vinnsluhraði“ hans hafði greinilega minnkað að mati læknanna.
Önnur afleiðing var sú að hjartsláttur hans hafði hægt á sér, úr 70 slögum á mínútu og niður í 61 slag, eitthvað sem að læknarnir töldu að væri alkóhólinu um að kenna. Er fullyrt í greininni að áfengið hækki vissulega oft blóðþrýsting fólks til skamms tíma en þegar mikils magns er neytt geti drykkjan virkað eins og „róandi lyf“ á taugakerfi fólks og lækkað hjartsláttinn tímabundið.
Að lokum var svefn Wallop mældur fyrir og eftir vikuna, sem og streitustig, og voru niðurstöðurnar þær hvorttveggja hrakaði verulega. Í stuttu máli var heildarskor hans varðandi svefn og streitu 90,5 af 100 fyrir tilraunina en hafði fallið niður í 73 viku síðar.
Í lokaorðunum segir Wallop að niðurstöðurnar hafi komið sér verulega á óvart. Vissulega hafði hann sullað ótæpilega með áfengi en sem sannur Breti hafði hann ekki upplifað það að magnið væri yfirgengilegt og hann hafði aldrei upplifað sig verulega ölvaðan á meðan tilrauninni stóð.
Honum dytti ekki í hug að hætta að drekka, það væri enn of mikil nautn sem hann vildi ekki sleppa, en tilraunin væri góð áminning um allt væri gott í hófi og fólk þyrfti að vera meðvitað um magnið sem það léti ofan í sig.